banner
   mið 28. september 2022 09:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Samantekt
Ísland endaði fyrir ofan Noreg og Svíþjóð - Besti gluggi Arnars
Ísland fagnar marki.
Ísland fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vonandi er hægt að byggja á þessu.
Vonandi er hægt að byggja á þessu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael Neville Anderson gerði jöfnunarmarkið í gær.
Mikael Neville Anderson gerði jöfnunarmarkið í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland endaði Þjóðadeildina þetta árið með dramatísku jafntefli gegn Albaníu á útivelli.

Strákarnir voru einum færri frá tíundu mínútu eftir að Aron Einar Gunnarsson fékk að líta klaufalegt rautt spjald snemma leiks. Strákarnir gáfust ekki upp og sýndu mjög góða frammistöðu í seinni hálfleiknum.

Ísland náði verðskuldað að jafna í blálokin en það var Mikael Neville Anderson sem skoraði markið eftir stórkostlega sendingu frá Þóri Jóhanni Helgasyni.

Það var mikið rætt um það fyrir leikinn í gær að hann væri algjörlega tilgangslaus, en það kemur ekki í ljós fyrr en á næsta ári hvort það sé raunin.

En það eru góðar líkur á því að þetta stig sé mjög mikilvægt því með því tryggði Ísland sér annað sætið í riðlinum.

Í heildartöflu Þjóðadeildarinnar - við vorum vissulega heppin með riðill - endar Ísland fyrir ofan bæði Noreg og Svíþjóð. Við verðum því til að mynda á undan báðum þessum liðum í umspilið fyrir EM á næsta ári - ef það spilast þannig að þessi þrjú lið enda ekki í tveimur af efstu sætunum í riðlum sínum í undankeppninni.



Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, vildi ekki senda neina leikmenn úr A-landsliðinu í U21 landsliðið, sem var í umspili um sæti í lokakeppni, og færði rök fyrir því að leikurinn við Albaníu væri mikilvægur. U21 missti naumlega af EM í gær, en það kemur ekki í ljós fyrr en seint á næsta ári hvort Arnar hafi haft rétt fyrir sér með mikilvægi þessa leiks gegn Albönum.

Lið sem ekki tryggja sér sæti á EM í gegnum undankeppnina geta nefnilega með góðum árangri í Þjóðadeildinni komist í sérstakt umspil um sæti á mótinu. Umspil eins og það sem Ísland komst í 2020 en tapaði á grátlegan hátt gegn Ungverjalandi.

Með jafnteflinu í gær varð það mun líklegra að Ísland komist í umspilið - ef við endum ekki í topp tveimur í undankeppninni - þar sem liðið er ofarlega í B-deild Þjóðadeildarinnar.

Það er gríðarlega mikilvægt fjárhagslega fyrir KSÍ að komast á EM og auðvitað yrði það ótrúlega gaman fyrir þann hluta þjóðarinnar sem fylgist með fótbolta.

Besti gluggi Arnars
Landsliðsþjálfarinn hefur verið mjög óvinsæll hjá þjóðinni frá því hann tók við en þjóðin virtist heilt yfir vera ánægð með frammistöðu liðsins í gær. Mögulega var þetta besti leikur liðsins undir stjórn Arnars frá því hann tók við - í ljósi þess hvernig hann spilaðist. Liðið sýndi mikla liðsheild sem var gaman að sjá.

Vonandi er þetta eitthvað sem hægt er að byggja á. Liðið sýndi frábæra liðsheild og baráttu; menn voru að berjast fyrir hvorn annan inn á vellinum. Það er grundvöllurinn að góðum árangri fyrir íslenska landsliðið.

Það er í raun hægt að segja að þetta hafi verið langbesti landsleikjagluggi Arnars með liðið. Liðið vann 0-1 sigur gegn Venesúela og tókst svo að gera jafntefli við Albaníu á erfiðum útivelli eftir að hafa verið einum færri í meira en 80 mínútu. Þeir hafa nú ekki margir verið góðir gluggarnir hjá Arnari, en þetta var sá besti til þessa. Líkt og fyrr segir, vonandi eitthvað sem hægt er að byggja á.

Þess má geta að lokum að allir leikmennirnir á U21 aldri komu við sögu gegn Albaníu í gær nema markverðirnir tveir.

Stærsta próf Arnars til þessa verður á næsta ári er þegar undankeppnin fyrir EM hefst. Liðið ætlar að komast inn á það mót.

Sjá einnig:
Alfreð inn í klefa eftir leik: Svona verða lið til
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner