Heimild: Aarhus Fremad
Ólafur Dan Hjaltason, leikmaður Aarhus Fremad sem leikur í næst efstu deild í Danmörku, hefur framlengt samning sinn við félagið. Samningurinn gildir út árið 2028.
Ólafur Dan er 19 ára Íslendingur en er fæddur og uppalinn í Danmörku. Hann gekk til liðs við Aarhus Fremad í fyrra og spilaði fyrst um sinn með U23 liði félagsins en hefur komið vel inn í aðalliðið.
Hann getur bæði spilað á miðjunni og í vörninni. Hann kom við sögu í ellefu leikjum þegar liðið vann 3. deildina í fyrra. Hann hefur komið við sögu í átta deildarleikjum í ár. Liðið er í 5. sæti með 15 stig eftir 10 umferðir.
„Ég er gríðarlega ánægður með að framlengja dvölina mína hér. Þetta hefur verið frábær tími og ég hlakka til að eyða enn meiri tíma hér. Þeir hafa trú á því að ég geti þróað leik minn mikið næstu árin svo þeir vilja hafa mig lengur. Ég er mjög ánægður með það," sagði Ólafur við undirskriftina.
„Þetta hefur gerst ótrúlega hratt hjá honum. Það hefur mikið með þroskan hans að gera, honum hefur gengið vel að aðlagast fullorðins fótbolta, bæði líkamlega og andlega. Það er oft stóri munurinn fyrir unga leikmenn," sagði Mads Østergård, þjálfari U23 liðsins.
Athugasemdir