Ingimar Torbjörnsson Stöle gekk til liðs við KA frá Viking í Noregi fyrir tímabilið en hann hefur komið gríðarlega sterkur inn í liðið í undanförnum leikjum.
Hann var til viðtals hjá Mbl eftir sigur KA gegn ÍBV í gær þar sem hann lagði upp fyrra markið á Jóan Símun Edmundsson í 2-1 sigri.
„Ég byrjaði á að spila frekar lítið, en það var bara eins og ég bjóst við. Ég vissi vel að þetta yrði erfitt og ég þyrfti að berjast fyrir mínútunum mínum. Svo bara hefur þetta komið og ég hef fengið mín tækifæri og finnst ég hafa nýtt þau vel," sagði Ingimar.
Hann vonast til að vera áfram í herbúðum KA.
„Ég fer líklega fyrst í frí til Noregs en kem svo vonandi til baka í KA. Vonandi fæ ég að koma aftur.“
Hann er ánægður með andann í hópnum.
„Mér finnst hann mjög góður. Það var það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom hingað. Það eru allir mjög fínir saman og þessir eldri hafa hugsað vel um mig. Þeir taka mig með í allt, sama hvað það er. Ég hef mjög gaman af þessum félagsskap," sagði Ingimar.