Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
   mán 29. september 2025 13:43
Elvar Geir Magnússon
Beard hengdi sig á heimili sínu
Matt Beard, fyrrum stjóri kvennaliðs Liverpool, féll fyrir eigin hendi.
Matt Beard, fyrrum stjóri kvennaliðs Liverpool, féll fyrir eigin hendi.
Mynd: Liverpool
Fyrir rúmri viku síðan var tilkynnt að Matt Beard, fyrrum þjálfari kvennaliðs Liverpool, væri látinn. Nú hefur verið greint frá því að hann fannst á heimili sínu eftir að hafa hengt sig.

Sjúkrabíll kom á heimili hans áður en hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést klukkan 21:15 að staðartíma þann 20. september, 47 ára að aldri.

Síðasta þjálfarastarf hans var hjá kvennaliði Burnley en hann hætti þar í júní eftir aðeins tvo mánuði í starfi.

Mínútuþögn var fyrir alla kvennaleiki á Englandi sunnudaginn 21. september og leik Liverpool gegn Aston Villa var frestað.

Beard hóf þjálfaraferilinn árið 2008 og stýrði þá kvennaliði Millwall. Hann fór síðan til Chelsea en var ráðinn til Liverpool árið 2012. Liðið vann enska titilinn tvö ár í röð undir hans stjórn.

Hann þjálfaði einnig hjá kvennaliðum Chelsea, West Ham United og nú síðast Burnley. Beard skilur eftir sig eiginkonu, Debbie, og tvö börn.

Liverpool sendi frá sér yfirlýsingu vegna andláts Beard.

„Knattspyrnufélagið Liverpool er í miklu áfalli og harmi slegið yfir skyndilegu andláti fyrrverandi knattspyrnustjóra kvennaliðsins í Liverpool. Hugur allra hjá félaginu er hjá fjölskyldu og vinum Matts á þessum erfiðu tímum. Matt var ekki aðeins einstaklega hollur og farsæll knattspyrnustjóri, heldur var hann einnig einstaklingur með mikinn heiðarleika og hlýju, sem allir sem hann vann með hjá félaginu munu alltaf minnast með einlægri hlýju." segir í yfirlýsingu Liverpool.



Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.
Athugasemdir
banner