Onana aftur til Inter - Zinchenko aftur til Arsenal - Man Utd horfir til Rennes - Palmer ósnertanlegur
   mið 28. janúar 2026 15:54
Elvar Geir Magnússon
Bílslys og meiðsli hafa áhrif á undirbúning Tottenham
Randal Kolo Muani.
Randal Kolo Muani.
Mynd: EPA
Pedro Porro er meiddur.
Pedro Porro er meiddur.
Mynd: EPA
Tottenham heimsækir Eintracht Frankfurk í lokaumferð Meistaradeildarinnar í kvöld. Undirbúningurinn hjá Thomas Frank og hans mönnum hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig.

Myndir birtust af Randal Kolo Muani og Wilson Odobert standa við bíl sem skemmdist í bílslysi. Kolo Muani hafði keyrt bifreiðina en skyndilega sprakk eitt af dekkjunum.

Odobert keyrði annan bíl og var á eftir Kolo Muani en stöðvaði til að athuga með samherja sinn. Kolo Muani slapp ómeiddur úr slysinu en þeir voru á leiðinni á Stanstead flugvöll fyrir flugið til Þýskalands.

Þeir misstu af fluginu og fóru með öðru flugi til Frankfurt í gærkvöldi.

Porro og Van de Ven meiddir
Þá er það að frétta af leikmannahópi Tottenham að varnarmennirnir Pedro Porro og Micky van de Ven verða ekki með í kvöld vegna meiðsla.

Porro verður frá í mánuð vegna meiðsla aftan í læri en meiðsli Van de Ven eru minniháttar og hann gæti snúið aftur fyrir deildarleikinn gegn Manchester City á sunnudaginn.

Það eru þó líka jákvæðar fréttir úr herbúðum Spurs en Joao Palhinha er kominn til baka eftir meiðsli og Pape Sarr er búinn að jafna sig af veikindum.

Tottenham hefur verið í brasi á tímabilinu, liðið er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og fallið úr báðum bikarkeppnum. Í Meistaradeildinni hefur gengið betur og liðið er í fimmta sæti, og öruggt með að minnsta kosti umspil. Ef Tottenham vinnur Frankfurt kemst liðið beint í 16-liða úrslit.

Frankfurt rak stjórann Dino Toppmöller nýlega og Dennis Schmitt, þjálfari U21 liðsins, stýrir liðinu til bráðabirgða. Frankfurt á ekki möguleika á því að komast áfram í Meistaradeildinni og er í áttunda sæti í deildinni í Þýskalandi.


Athugasemdir
banner