Hinn 17 ára gamli Viktor Bjarki Daðason skoraði eina mark FCK í 4-1 tapi gegn Barcelona á Nývangi en þetta var þriðja Meistaradeildarmark hans á tímabilinu.
„Frábært slútt og algjörlega geggjuð sending sem hann fær þarna. Hann hækkaði í verði um dágóða summu með því að spila þennan leik og skora þetta mark," segir Sigurbjörn Hreiðarsson, sérfræðingur Sýnar, í markaþættinum í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari var á leiknum í Barcelona í kvöld.
„Hann hlýtur að komast inn í íslenska landsliðið, hann hlýtur að hafa unnið sig þar inn. Það getur ekki annað verið. Hann verður á milli tannana á fólki. Þetta er demantur, það er ekki nokkur spurning," segir Sigurbjörn.
Gamli markahrókurinn Atli Viðar Björnsson var einnig sérfræðingur í sjónvarpssal Sýnar.
„Hann er að skapa sér risastórt nafn í Evrópu. Þetta er sautján ára gæi sem er búinn að skora þrjú mörk í Meistaradeild Evrópu og var að skora á Nou Camp. Hann hefur allt að bera til að skapa sér risastórt nafn og sigra heiminn á næstu misserum," segir Atli.
„Ég er rosalega hrifinn af því hvað hann er fjölhæfur. Hann er góður með bakið í markið, góður að staðsetja sig inni í teig og góður í að slútta færunum sínum. Sem 'target-stræker' hefur hann rosalega mikið að bera."
Athugasemdir



