Fjórir risar bítast um Wirtz - Neymar aftur til Barcelona? - Howe og Potter orðaðir við stjórastarf Manchester United
   fös 30. ágúst 2024 16:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fengið rúma 5,5 milljarða fyrir tvo gutta frá Íslandi
Orri Steinn Óskarsson og fyrir aftan hann er Hákon Arnar Haraldsson.
Orri Steinn Óskarsson og fyrir aftan hann er Hákon Arnar Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur heldur betur borgað sig fyrir stærsta félag Danmerkur að fjárfesta í ungum íslenskum leikmönnum.

FCK, sem er stærsta félag Norðurlanda, hefur síðustu árin fylgst vel með leikmönnum á Íslandi og félagið er heldur betur að fá það til baka.

Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson gengu í raðir félagsins á svipuðum tíma, fóru í gegnum akademíuna og slógu í gegn í aðalliðinu.

Hákon Arnar, sem er 21 árs, var í fyrra seldur til Lille í Frakklandi fyrir 15 milljónir evra en sú upphæð gæti síðar meir hækkað í 17 milljónir evra.

Núna er FCK svo að selja Orra Stein, sem er nýorðinn tvítugur, til Real Sociedad á Spáni fyrir 20 milljónir evra.

Sölurnar á Hákoni og Orra eru þær tvær stærstu í sögu FC Kaupmannahafnar. Orri verður núna dýrasti leikmaður sem FCK hefur nokkurn tímann selt.

FCK hefur samtals fengið rúmlega 5,5 milljarða íslenskra króna fyrir þessa tvo leikmenn og njóta uppeldisfélög Hákons og Orra, ÍA og Grótta, svo sannarlega góðs af því. Þau fá hluta af þeirri upphæð frá danska félaginu.

Stærstu kaup í sögu Sociedad
Orri Steinn hefur verið gríðarlega eftirsóttur í sumar og var hann meðal annars orðaður við Englandsmeistara Manchester City. Núna er Sociedad hins vegar að vinna kapphlaupið og upphæðin sem þeir borga fyrir hann sýna hvað þeir vilja hann mikið.

Orri verður nefnilega dýrasti leikmaður í sögu Sociedad ásamt Umar Sadiq sem var keyptur frá Almeria fyrir 20 milljónir evra þann 1. september 2023.

Sociedad er stórt félag á Spáni en liðið hafnaði í sjötta sæti La Liga á síðustu leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner