Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   mið 30. desember 2020 12:16
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
G. Andri: Frekar þreytt að henda heilu tímabili í vaskinn
Eins ömurlegt og það verður og frekar vandræðalegt bara
Það verður mjög erfitt að komast inn í lokahópinn og maður hefur lítinn tíma til að sanna sig.
Það verður mjög erfitt að komast inn í lokahópinn og maður hefur lítinn tíma til að sanna sig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Víkingi tímabilið 2019.
Í leik með Víkingi tímabilið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er kannski fínt fyrir okkur að vera besta liðið í deildinni og þá nýtur maður sín kannski meira inn á vellinum.
Það er kannski fínt fyrir okkur að vera besta liðið í deildinni og þá nýtur maður sín kannski meira inn á vellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er ágætur bara. Ég er núna í alvöru prógrami hér á Íslandi frá félaginu til að koma klár í slaginn þegar undirbúningstímabilið hefst. Eins og staðan er núna er planið að ég verði áfram hjá Start," sagði Guðmundur Andri Tryggvason þegar Fótbolti.net sló á þráðinn til hans í gærkvöldi.

Andri lék ekkert með Start í Noregi á liðinni leiktíð vegna meiðsla. Andri sagði í samtali við Fótbolta.net í ágúst að stefnan væri að snúa til baka um miðjan september, en það tókst ekki.

Hvenær komstu til Íslands?

„Ég kom nítjánda og var í fimm daga sóttkví. Horfði aðeins á píluna í sóttkvínni, stemmari í því. Fyrsta æfingin úti er svo 25. janúar."

Varstu orðinn klár í slaginn undir lok tímabils eða ertu enn að glíma við meiðslin?

„Ég var orðinn nokkuð heill undir lokin og hefði getað spilað eða alla vega verið í hópnum á leikdag en við ákváðum að taka enga sénsa með það, upp á framhaldið að gera. Ef það væri leikur á morgun sæi ég alveg fyrir mér að geta komið inn á."

Þú hefur verið meiddur stóran hluta af árinu. Hvernig hefur verið að fylgjast með utan frá?

„Þetta var frekar þreytt, að henda heilu tímabili í vaskinn. Líka að horfa á liðsfélagana falla og geta ekkert gert í því sjálfur."

Ertu harðákveðinn í því að festa þig sem byrjunarliðsmaður hjá Start og hjálpa liðinu í að komast upp aftur?

„Já, það eru auknar líkur núna að ég fái að spila. Það fara fullt af leikmönnum og eins og félagið segir við mig þá verð ég lykilmaður á næstu leiktíð, þ.e.a.s. ef ég verð heill. Það hefði auðvitað verið gaman og best ef liðið hefði haldið sér uppi en nú er breytt staða."

„Ég sá alveg fyrir mér að ég myndi spila einhverja leiki á þessu ári í efstu deild og hundfúlt að fara í fyrstu deildina. Það er kannski fínt fyrir okkur að vera besta liðið í deildinni og þá nýtur maður sín kannski meira inn á vellinum. Á þessari leiktíð var svoliítið spilað upp á stigið í leikjum en stefnan er núna sett beint upp."


Eru margir að fara frá félaginu eftir að liðið féll?

„Það er alla vega búið að tilkynna að fjórir leikmenn séu farnir og einn hættur. Þrír af fjórum eru sóknarmenn eins og ég. En mögulega koma einhverjir inn á móti."

Liðið féll á ótrúlegan hátt (á markatölu í síðustu umferð). Hvernig var andrúmsloftið?

„Ég var kominn til Íslands þrem dögum fyrir síðasta leik svo ég var ekki með liðinu þegar það féll. En þetta var auðvitað ömurlegt og að ná ekki einu sinni þessu umspilssæti, eins ömurlegt og það verður og frekar vandræðalegt bara."

Var stefnan sett hærra hjá liðinu en að halda sætinu í deildinni?

„Já, markmiðin voru sett talsvert hærra en þetta. Við náum jafntefli við Bodö/Glimt [yfirburðar besta liðið] en eftir það hrynur þetta eiginlega. Það hefði þurft að byggja ofan á það góða jafntefli. Það var svolítið andleysi í hópnum og vantaði leiðtoga í hópinn, eins og ég upplifði hlutina, til að ná betri árangri."

Nú er U21 á leið á lokamót. Er það auka innspýting fyrir þig að komast í gang og ná að auglýsa þig fyrir nýjum þjálfurum?

„Jú, algjörlega. Það var leiðinlegt að missa af leikjunum þegar sætið var tryggt. Það var mjög vel gert hjá strákunum að ná því. Það verður mjög erfitt að komast inn í lokahópinn og maður hefur lítinn tíma til að sanna sig. Það eru þjálfaraskipti og maður veit ekki hvað gerist í þeim málum," sagði Andri að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner