Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
banner
   fim 20. október 2011 09:00
Skúli Jón Friðgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Dollurnar komu loksins heim til sín
Sumarið gert upp - Skúli Jón Friðgeirsson (KR)
Skúli Jón Friðgeirsson
Skúli Jón Friðgeirsson
,,Við enduðum vissulega sem bikarmeistarar en hvort sem það var vegna seiglunnar í liðinu eða því að sláin er í 2,44 m hæð en ekki 2,50 m hæð ætla ég ekki að segja til um. Það sem öllu skipti samt var að fyrsta dollan var komin til síns heima og mikið var fagnað á Eiðistorgi.
,,Við enduðum vissulega sem bikarmeistarar en hvort sem það var vegna seiglunnar í liðinu eða því að sláin er í 2,44 m hæð en ekki 2,50 m hæð ætla ég ekki að segja til um. Það sem öllu skipti samt var að fyrsta dollan var komin til síns heima og mikið var fagnað á Eiðistorgi."
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Undanfarna daga hafa leikmenn liða í Pepsi-deildinni gert upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag er komið að síðasta pistlinum og hann er frá Íslands og bikarmeisturum KR en varnarmaðurinn Skúli Jón Friðgeirsson fékk það verkefni að rita nokkur orð á blað.Ég held að ég hafi aldrei fagnað jafn mikið á ævinni og ég hef gert síðustu 3 vikur, fögnuðurinn hefur svo sem átt rétt á sér því þetta hefur jú verið lygilegt sumar í Vesturbænum. Nú þegar það er loksins farið að renna af okkur bæði gleðin og annað þá er gott að geta sest niður og rifjað upp þetta einstaka tímabil sem nú er lokið (þó að það verði að sjálfsögðu endurtekið á næsta ári).

Þetta byrjaði allt saman í vetur og var í rauninni ekkert frábrugðið öðrum undangengnum undirbúningstímabilum. Rúnar var reyndar að stýra liðinu í fyrsta skipti, í gegnum þennan frábæra tíma sem veturinn á Íslandi er, en annað var nokkuð svipað. Þó gerðist þrennt sem mér finnst vert að nefna.

Í fyrsta lagi ákvað Lúlli liðstjóri að skreppa til London sem heppnaðist ekki betur en svo að hann varð veðurtepptur og missti af leik eftir að hafa mætt í rúmlega 600 leiki í röð. Í öðru lagi var fyrirliðinn okkar ekki nema mánuð í Suður-Afríku í kringum hátíðarnar og náði hann því svona sex æfingum með okkur þennan veturinn sem er mikil bæting. Í þriðja lagi var svo ákveðið að æfingaferðir til útlanda væru tilgangslausar og var því í staðinn farið í tveggja daga fyllerísferð til Akureyrar. Í þessari ferð tókst Baldri að sýna okkur sveitina sína og kenna okkur að skjóta úr haglabyssu, Mummi sagði stelpu að fara úr jakkanum og sjálfur fór ég í sturtu.

Eins og tíðkast á veturna þá hverfa sumir á brott og aðrir nýir menn koma í staðinn. Það var reyndar minna um það þennan veturinn hjá okkur en oft áður sem er jú gott og ég er ekki frá því að við höfum komist nokkuð vel frá þessum skiptum. Við fengum Hannes til okkar í markið og vorum svo heppnir að hann var að renna inní ár lífs síns. Þetta ár hans er án gríns búið að vera svo mikið djók að ég bíð bara eftir því að fá símtal frá honum þar sem hann tilkynnir mér að hann hafi unnið í lottó. Hann var samt ekki eini maðurinn sem við fengum. Bjössi kom frá Hollandi, frábær knattspyrnumaður og einstaklega skemmtilegur maður að umgangast. Hann spurði t.d. annan Gunnan að því í sumar hvort að ofnæmið hans væri smitandi. Þessi stutta saga lýsir Bjössa afskaplega vel. Síðastur en ekki sístur er túlipaninn Gunnar Þór sem kom frá Svíþjóð og olli stormandi lukku í klefanum, þá sértaklega hjá hinum Gunnanum en þeir hafa alla tíð síðan neitað að svara öðrum nöfnum en Klitschko bræður en það viðurnefni dæmir sig svo sem sjálft.

Mótið hófst svo loksins með því að Ingó fékk sér Twitter og fór í beinu framhaldi af því í Val. Við hinir byrjuðum hinsvegar mótið vel í þetta skiptið, eitthvað sem við höfðum ekki prófað áður. Fórum þetta reyndar meira á seiglunni fyrstu leikina en punktarnir komu í hús. Við vorum efstir eftir hraðmótið og ég gat farið glaður í fríið mitt til Danmerkur, kom reyndar ekki alveg jafn glaður til baka en það er önnur saga. Rúnar gaf strákunum viku frí til þess að leika sér og komum við afar ferskir aftur til leiks og fórum að spila afskaplega góðan fótbolta.

Næst á dagskrá var Evrópukeppnin. Við KR-ingar föttuðum fyrir örfáum árum hvernig hún gengur fyrir sig. Það er semsagt þannig að ef maður vinnur leiki þá kemst maður í framhaldi af því áfram og fær að spila fleiri leiki, afskaplega skemmtilegt allt saman og eitthvað sem önnur íslensk lið mættu fara að taka sér til fyrirmyndar. Þessari gleði fylgja reyndar misskemmtileg ferðalög. Í ár fengum við að fara til Færeyja þar sem Kiddi Kjærnested fór á barinn, Slóveníu þar sem Hannes hinn nýríki bjargaði efnahagi landsins og svo enduðum við Evróputúrinn með stuttri skemmtiferð til Georgíu þar sem Óskar Örn okkar jafn besti maður framan af móti tókst að meiða sig.

Þegar þarna var komið við sögu vorum við komnir í bikarúrslit í þriðja skiptið á fjórum árum og áttum leik við Þór þar sem að allir voru búnir að spá okkur öruggum sigri. Leikurinn spilaðist reyndar ekki alveg þannig. Við enduðum vissulega sem bikarmeistarar en hvort sem það var vegna seiglunnar í liðinu eða því að sláin er í 2,44 m hæð en ekki 2,50 m hæð ætla ég ekki að segja til um. Það sem öllu skipti samt var að fyrsta dollan var komin til síns heima og mikið var fagnað á Eiðistorgi.

Nú átti bara eftir að loka þessari deild þar sem við höfðum verið í efsta sæti nánast frá fyrsta degi. Strákarnir í Pepsi mörkunum fannst við vera að fara of þægilega í gegnum þetta og hentu saman í tímamótamyndband sem skilaði einhverjum 25 spjöldum í næstu 4 leikjum og því voru að minnsta kosti tveir leikmenn í banni í hverjum leik það sem eftir var af móti. Þetta kom sér ekkert sérstaklega vel því þarna var liðið orðið mjög þreytt og menn farnir að meiðast enda hafði álagið ekki verið neitt grín. Við fórum að hiksta í deildinni og farið að fara um ýmsa í Vesturbænum. Þá kom sem betur fer landsleikjahlé og Rúnar gaf sitt annað viku frí á tímabilinu. Fríið skilaði því að menn náðu að tjasla sér saman og hlaða batteríin og liðið fór að spila betur. Síðustu leikirnir verða svo lengi í minnum hafðir. Fyrst var leikur í Keflavík þar sem ég vil meina að ég hafi átt skiptingu áratugarins þegar ég skipti sjálfum mér útaf fyrir Aron Bjarka sem hafði hitað upp í rúma tvo tíma. Rauðhærði Nesta þakkaði pent fyrir sig, reif sig uppí rúmlega þriggja metra hæð, stangaði boltann inn og skellti með því annarri hendi okkar KR-inga á dolluna. Hin hendin fylgdi svo þremur dögum seinna þegar vofan (Dofri Snorrason) sveif upp hægri kantinn í Frostaskjólinu og potaði boltanum inn.
Við vorum orðnir Íslandsmeistarar!!

Viku seinna lauk svo tímabilinu, Eiðistorgið var fyllt og KR-ingar ungir sem aldnir fögnuðu, enginn samt meira en Haffi á Rauða Ljóninu.

Þegar maður veltir fyrir sér af hverju þetta gekk svona vel í ár er margt sem maður getur tínt til, stór atriði sem smá t.d. var Ellý Vilhjálms gerð að KR-ing, samband leikmanna og stuðningsmanna stórbætt, við fengum Jóhann Inga sálfræðing inní þjálfarateymið en hann á stóran þátt í þessum árangri, leikmannahópurinn var góður og mórallinn frábær. Það sem stendur samt uppúr er samstaðan í félaginu en allt frá fyrsta degi var aðeins eitt sem kom til greina fyrir þetta tímabil og allir unnu að því að gera sitt eins vel og þeir gátu svo að árangur gæti náðst og þá er sama hvort um var að ræða dr. Schram starfsmann í húsinu, Jónas framkvæmdastjóra eða Grétar Sigfinn hinn handlagna húsföður.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til þess að gera þetta ár að því sem það var í Vesturbænum.
Dollunum fyrir að koma loksins heim til sín.
Strákunum á .net fyrir að gefa mér eitthvað að gera hérna á sundlaugabakkanum

Skúli Jón Friðgeirsson Íslands og Bikarmeistari 2011

Sjá einnig:
Björn Daníel Sverrisson (FH) - Bara fagmenn í FH
Guðmundur Þórarinsson (ÍBV) - FM hnakkinn frá Selfossi á ekki roð í Tryggva Guðmunds
Jóhann Laxdal (Stjarnan) - Nú er mómentið
Sigurbjörn Hreiðarsson (Valur) - Afmælisgjöfin kemur síðar
Sigmar Ingi Sigurðarson (Breiðablik) - Mætti með jólaseríu í staðinn fyrir takkaskó á æfingu
Kristján Valdimarsson (Fylkir) - Þið eruð bara helvítis kæglar
Magnús Þórir Matthíasson (Keflavík) - Við ákváðum að prófa fallbaráttuna
Tómas Leifsson (Fram) - Með leikmann sem er með sveinspróf í fallbaráttu
Hafþór Ægir Vilhjálmsson (Grindavík) - Mjög erfitt að skilja þessa Skota
Sveinn Elías Jónsson (Þór) - Móralski dagurinn fór aðeins úr böndunum
Halldór Smári Sigurðsson (Víkingur R.) - Þetta átti sko að vera 2114, ekki 2014
banner
banner