Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 11. október 2019 07:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Wenger um Gnabry: Bayern hafði áhrif á bak við tjöldin
Gnabry og Niko Kovac, stjóri Bayern.
Gnabry og Niko Kovac, stjóri Bayern.
Mynd: Getty Images
Kantmaðurinn Serge Gnabry er í stóru hlutverki hjá bæði Bayern München og þýska landsliðinu.

Gnabry skoraði fernu fyrir Bayern gegn Tottenham í Meistaradeildinni í síðustu viku og skoraði hann fyrir þýska landsliðið í vináttulandsleik gegn Argentínu í gær. Hann er búinn að skora tíu mörk í 11 landsleikjum.

Gnabry er fyrrum leikmaður Arsenal, en hann var seldur þaðan fyrir 5 milljónir punda sumarið 2016. Hann fór til Werder Bremen og var hann keyptur til Bayern ári síðar.

Arsene Wenger, fyrrum knattspyrnustjóri Arsenal, telur að Bayern hafi haft áhrif á ákvörðun Gnabry að fara frá Arsenal.

„Við reyndum að framlengja samning hans um mörg ár, en ég held að Bayern hafi haft áhrif á bak við tjöldin, að ef hann færi til Werder Bremen þá myndi hann fara til Bayern þar á eftir," sagði Wenger við beIN Sports.

„Hann var alltaf hæfileikaríkur drengur sem vantaði sjálfstraust. Við héldum alltaf að við værum með leikmann sem gæti afrekað mikið."

„Hann átti mjög slæma reynslu á láni hjá West Brom, sjálfstraust hans var í molum. Ég reyndi að hjálpa honum vegna þess að ég hafði trú á honum."

Þótt hinn 24 ára gamli Gnabry hafi verið að standa sig vel að undanförnu þá telur Wenger að hann þurfi meiri stöðugleika ef hann á að teljast sem einn af bestu leikmönnum í heimi.
Athugasemdir
banner