Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 03. mars 2006 15:25
Magnús Már Einarsson
Nokkur lið í 3.deild mjög ósátt við riðlaskiptingu
Mynd: adidas
Nokkur umræða hefur átt sér stað á bloggsíðum liða af Austurlandi varðandi riðlaskiptingu í þriðju deildinni í ár. Tveir níu liðar riðlar verða á Suð-Vestur horninu og sjö liða riðill verður á Norðurlandi. Austurlandsriðillinn mun hinsvegar telja fimm lið og verður leikin þreföld umferð þar.

Fyrir Austan eru menn orðnir þreyttir á að leika alltaf við sömu liðin og það oft á hverju sumri og því minnkar einnig oft "jafnari" leikjum. Auk þess eru Snartarmenn frá Kópaskeri mjög ósáttir við að vera settir í Austurlandsriðilinn þar sem nokkrir leikmenn liðsins eru af Norðurlandi og þá er styttra fyrir liðið að fara þangað í útileiki heldur en á Austurland. Því er óvíst hvort liðið geti tekið þátt í þriðju deildinni í ár með núverandi riðlaskiptingu og fari svo þá verða einungis fjögur lið eftir í Austurlandsriðlinum.

Á bloggsíðu Snartar má sjá bréf sem liðið sendi á KSÍ sem og bréf sem Leiknir Fáskrúðsfirði sendi á knattspyrnusambandið vegna málsins en hér má sjá þessi bréf.

Við á Fótbolti.net fórum á stúfana og ræddum við menn hjá Snerti, Hetti og Leikni Fáskrúðsfirði en þessi lið eru einna ósáttust við niðurröðina í riðlana. Birkir Sveinsson í mótanefnd KSÍ vildi ekki tjá sig um málið en sagði þó að verið væri að vinna því.

Spurningin sem liðin fengu var hinsvegar einföld: Hvað eruð þið ósáttir með?


Baldur Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Snartar:
,,Við erum ósáttir við að fá ekki að spila við Eyjafjarðarliðin eins og verið
hefur til þessa. Við erum í þeirri aðstöðu að geta ekki útvegað nema nokkrum mönnum vinnu á Kópaskeri yfir sumartímann og því erum við háðir
utanaðkomandi aðstoð, frá Húsavík og Akureyri. Atvinnuástandið heima er ekki burðugt um þessar mundir. KSÍ eru meðvitaðir um stöðu okkar í þeim málum. Með því að taka okkur út úr riðli með Eyjafjarðarliðunum standa okkar leikmenn þar frammi fyrir því að fá enga leiki á sínu heimasvæði og að þurfa að keyra 2-5 tíma (aðra leiðina) í hvern einasta leik en fyrir því er eðlilega mjög lítill áhugi."

,,Við höfum í sjálfu sér ekkert á móti því að keyra austur á firði stöku sinnum en að þurfa að gera það í öllum 6 útileikjunum er eitthvað sem leikmenn hafa ekki áhuga á og nú sjáum við fram á það að ná hreinlega ekki í lið. Þetta hefur keðjuverkandi áhrif. Þegar heimamenn sjá svona stór skörð höggvin í hópinn eins og nú, er bjartsýnin og áhuginn ekki mikill. Það átta sig auk þess fáir á því að Akureyringar eru fljótari að keyra til Egilsstaða en við. Það er ekki nóg að horfa bara á landakortið."

,,Við höfum sent KSÍ beiðni um að þetta fyrirkomulag verði endurskoðað. Við erum háðir ofangreindum forsendum og því ríkir mikil óvissa um þátttöku okkar í 3.deild þetta árið. Því miður."


Magnús Björn Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis F.:
,,Það sem við erum óhressir með er að vera settir í 5 liða riðil með þrefaldri umferð á meðan hinir riðlarnir innihalda 7 og 9 lið. Við fáum aðeins 12 leiki í riðlinum, sem er of lítið, en við veigrum okkur við því að biðja um fjórðu umferðina. (Nóg að spila við þrisvar við Hött í riðlinum + í bikar + í deildarbikar) Í fyrra var loksins orðið við því að blanda saman liðum af Norður- og Austurlandi og reyndist vel, enda í fyrsta skipti í mörg ár sem jöfnuður var í riðlunum, sjö lið í hverjum og nokkuð um ferðalög í þeim öllum. Þetta var nokkuð sem við höfum barist fyrir í mörg ár eða frá því 2001 og 2002, en þau sumur voru 4 lið í Austfjarðariðlinum og leikin fjórföld umferð."

,,Langþráð fjölgun í 1. deild verður staðreynd sumarið 2007, sem þýðir að 3 félög fara upp úr 3ju deild í ár. Því hefði það verið raunhæfur kostur að skipta liðunum í þrjá 10 liða riðla og sex lið í úrslitum, með einföldum útslætti í einni umferð. Það þýddi 20 leiki á lið sem færu í úrslit (+aukakeppni til að finna deildarmeistara), sami leikjafjöldi og liðin í A- og B-riðlunum sem ná í fjögurra liða úrslit leika! Ef félögin á SV-svæðinu geta það þá geta við á NA-svæðinu það líka."

,,Þá sé ég hvergi nein rök fyrir því af hverju liðunum á Norður- og Austurlandi var ekki skipt í tvo jafn stóra riðla og leikin þreföld umferð í báðum - úr því ekki var vilji til að blanda saman Norðurlandi vestra og SV-horninu eins og í fyrra."

,,Til þess að félög eigi raunhæfa möguleika í úrslitakeppni 3ju deildar verða þau að hafa leikið "alvöru" leiki yfir sumarið og helst marga slíka. Ekki eins og ég óttast að D-riðillinn verði, með Neista, Einherja og Snört mun veikari en Hött og Leikni. Þá er þetta vægast sagt óspennandi fyrirkomulag, ekki til að auðvelda félögunum að fá eða halda mannskap."

,,Samgöngur hafa á síðustu árum snarbatnað og nú er t.d bundið slitlag alla leið (utan 6 km) frá Fáskrúðsfirði til Akureyrar og ferðalagið tekur orðið innan við 3 og 1/2 tíma, sem er um klukkustundu minna en fyrir bara 2-3 árum (fyrir tíma bundins slitlags á Jökuldal og víðar, Hárekstaðaleið og Fáskrúðsfjarðargöng). Bara þessi staðreynd auðveldar til muna að láta riðlana ná yfir stærra svæði. Reyndar gildir svipað um allt land - á Íslandi er í gangi samgöngubylting."


Hilmar Gunnlaugsson, formaður rekstrarfélags Hattar:
,,Við teljum okkur vera félag sem hefur metnað þrátt fyrir að spila í neðstu deild. Vel má vera að einhverjum þyki slík yfirlýsing brosleg en okkur er fúlasta alvara. Sú niðurröðun sem orðið hefur að veruleika er þess eðlis, að einhver önnur sjónarmið en knattspyrnuleg hafa þar ráðið för. Í 3. deild voru skráð 30 lið. Vitað var að riðlarnir yrðu fjórir."

,,Í reglum KSÍ segir að leikin skuli tvöföld umferð. Það sætir því furðu, hvernig hægt er að hafa 5 lið í einum riðli og þrefalda umferð og við hjá Hetti teljum vafa leika á hvort þetta hafi verið heimilt. Við höfum óskað eftir rökstuðningi stjórnar KSÍ en ekki fengið enn, en hann hlýtur að vera væntanlegur fljótlega. Við sjáum engin - alls engin rök fyrir þessari niðurstöðu. Eðlilegast hefði verið að ákveða fyrirfram að hafa sem jafnasta tölu í riðlinum, þó hugsanlegt hefði verið að hnika því eitthvað. Það hefði þýtt tvo 7 liða riðla og tvo 8 liða. En að hafa einn með 5 liðum og tvo með 9 liðum er ekki jöfn skipting, heldur skipting sem beinlínis mun bitna á liðum úr fámennari riðlum í úrslitakeppninni að okkar mati."

,,Okkur er gríðarlega mikið niðri fyrir vegna þessa máls og teljum gróflega á okkur brotið, en vonum enn að stjórn KSÍ muni sjá að sér og því er það ætlun okkar að vinna þetta með KSÍ en ekki á móti. En öll umræða um málið er góð, henni fögnum við og sérstaklega viljum við átta okkur á því, hvaða rök geta eiginlega legið á bak við þessa niðurstöðu."


Athugasemdir
banner
banner