Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 23. júlí 2010 11:09
Alexander Freyr Tamimi
Stuðningsmenn Breiðabliks ósáttir með ummæli Ólafs
Ólafur Kristjánsson var ósáttur með stuðningsmenn Blika í gærkvöldi. Nú eru þeir ósáttir með hann.
Ólafur Kristjánsson var ósáttur með stuðningsmenn Blika í gærkvöldi. Nú eru þeir ósáttir með hann.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Stuðningsmenn Breiðabliks eru ekki alls kostar sáttir við ummæli Ólafs Kristjánssonar, þjálfara liðsins, eftir 1-0 tap þeirra gegn Motherwell í Evrópudeildinni í gær. Breiðablik tapaði viðureigninni 2-0 samtals og er því úr leik í ár.

Ólafur sagði í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn í gærkvöldi að hann hefði verið ósáttur með stuðninginn sem Breiðablik fékk frá stuðningsmönnum sínum en þeir voru duglegir að lýsa yfir óánægju sinni með ákveðna leikmenn þegar illa gekk. Sagði Ólafur að hann hefði heyrt meira af neikvæðu tuði úr stúkunni heldur en stuðningi og fannst honum það vera óásættanlegt.

Á spjallborði stuðningsmanna Breiðabliks má finna umræðuþráð þar sem nokkrir stuðningsmenn lýsa yfir óánægju sinni með þessi ummæli Ólafs og ætlum við að birta það helsta hér.

Þráðinn í heild sinni má sjá með því að smella hér.

Umrætt viðtal við Ólaf Kristjánsson má sjá með því að smella hér, en ummæli hans um stuðningsmennina koma undir lokin.



Brot úr spjallþræði á vefsíðunni Blikar.is:

„Stuðningurinn við liðið var virkilega flottur í kvöld og stuðningsmennirnir studdu liðið allan leikinn. Finnst Ólafur þurfi að útskýra þetta betur, engan veginn rétt hjá honum þrátt fyrir að menn kannski fussuðu öðru hverju yfir lélegum ákvörðunum sem mér persónulega finnst bara mjög eðlilegt og gerist á hvaða knattspyrnuleikjum sem er.“ – Seðillinn

„Leiðinlegt að heyra, hefði verið gaman að fá hrós fyrir það hversu margir mættu og mér fannst við láta vel í okkur heyra.“ – Ólafur

„Ég get nú ekki annað en tekið undir með þeim sem hóf þennan þráð. Hvað er hann að sletta í stuðningsmenn BLIKA? Hann ætti að sjálfsögðu að beita sínum kröftum sjálfur til liðsins. Stuðningsmenn Blika eru snillingar hvað sem honum finnst. Þeir gera að sjálfsögðu kröfur og eiga að gera það. Fótbolti er tilfinningar og menn missa stundum svolítið stjórn á sjálfum sér og ekkert við það að athuga. Þjálfarinn á ekki að standa í einhverju skítkasti við stuðningsmenn liðsins og gera lítið úr þeim.“ – Hlerinn

„Fáránlegt af Óla , langt síðan liðið hefur fengið svona góðan stuðning og hann vælir!! Auðvitað máttum við vera ósáttir við lélegar sendingar og þannig, en persónulega finnst mer Óli vera sér til skammar núna.“ – BiggiBliki

„Ólafur þjálfari ætti auðvitað að biðja stuðningsmenn BREIÐABLIKS afsökunar á þessum ummælum sínum. Hann væri meiri maður að minni hyggju, málið dautt og engir eftirbátar.“ – Hlerinn

„Það er nú bara eðlilegasti hlutur í heimi að stuðningsmenn segi sína skoðun. Liðið spilaði ekki vel og var ekkert á leiðinni að vinna leikinn. Á köflum fannst mér að það værum við sem hefðum unnið 1-0 í skotlandi og værum að verja þá stöðu þó svo skotarnir væru yfir. Þetta veit Ólafur manna best. Það er heldur ekki sniðugt að vekja væntingar stuðningsmanna og standa svo ekki undir þeim.“ – Robson

Ekki eru þó allir neikvæðir í garð þjálfarans og benda sumir á þá staðreynd að hann hefur verið að gera frábæra hluti með liðið.

„Við getum verið viss um að það sem sagt er í stúkunni skilar sér á annan hátt niður á völlinn til leikmanna og þjálfara. Sumt heyrist betur en annað. Ég er þess fullviss að Ólafur Kristjánsson var ekki að tala niður til stuðningsmanna með orðum sínum í kvöld. En vissulega getum við staðið okkur betur í kvattningum í stúkunni og vissulega geta sumir leikmenn gert betur á stundum á vellinum. Það verður vart tekið af þjálfaranum eða stuðningsmönnum að sýna smá tilfinningar á meðan á leik stendur eða að leik loknum. Látum þetta ekki pirra okkur og höldum áfram að styðja við bakið á þjálfaranum og leikmönnum,allt til enda Íslandsmótsins. Hver veit nema að okkur verði öllum launað ríkulega í mótslok.“ – Hulk

„Við skulum nú sammt ekki allveg missa okkur hérna, hann hefur vissulega rétt á að hafa skoðanir á hlutunum. Megum ekki gleyma því að ef eitthver á hrós skilið fyrir góðu gengi liðsins, fyrir utan leikmennina sjálfa, þá er það hann.“ – Ólafur

„Óli hefði alveg mátt sleppa því að ræða þetta. Hitt er annað mál að hann hefur rétt fyrir sér. Þar sem ég sat voru nokkrir lúðar sem jusu fúkyrðum yfir okkar leikmenn alltaf ef það klikkaði sending eða skallaeinvígi tapaðist.“ – Jói Jósteins

Breiðablik er sem stendur í efsta sæti Pepsi-deildarinnar með 26 stig eftir 12 leiki, jafn mörg stig og ÍBV sem er í öðru sæti. Þessi tvö lið eru síðan sjö stigum á undan næstu liðum í röðinni.
banner
banner
banner