banner
   þri 03. ágúst 2021 22:27
Brynjar Ingi Erluson
Íslendingalið Venezia að fá varnarmann frá Milan
Mattia Caldara er á leið til Venezia
Mattia Caldara er á leið til Venezia
Mynd: Getty Images
Mattia Caldara, varnarmaður Milan á Ítalíu, er að ganga til liðs við Venezia á láni út tímabilið, en ítalskir fjölmiðlar greina frá þessu í kvöld.

Caldara er 27 ára gamall miðvörður sem er uppalinn hjá Atalanta en þroskaðist á lánstíma sínum hjá Cesena í B-deildinni.

Hann var keyptur til Juventus árið 2017 en spilaði þó aldrei leik fyrir félagið áður en Milan keypti hann ári síðar.

Caldara fékk ekki mikinn spiltíma hjá Milan á fyrstu leiktíðina og lék aðeins tvo leiki áður en hann gerði tveggja ára lánssamning við Atalanta.

Erfið meiðsli höfðu áhrif á spiltíma hans með Atalanta en hann er nú búinn að ná sér og mun nýta tækifærið með Venezia, sem vann sér sæti í Seríu A, á síðasta tímabili.

Hann verður á láni út tímabilið og fær Venezia forkaupsréttinn á honum.

Fimm Íslendingar eru á mála hjá Venezia. Óttar Magnús Karlsson, Bjarki Steinn Bjarkason, Arnór Sigurðsson, Jakob Franz Pálsson og Kristófer Jónsson eru allir á mála hjá Feneyjarliðinu.
Athugasemdir
banner