Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 03. ágúst 2021 19:52
Brynjar Ingi Erluson
Pepsi Max-deildin: Þriðji sigur KA í röð - Hallgrímur Mar skoraði tvö
Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði bæði mörk KA og er nú með átta mörk í deildinni
Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði bæði mörk KA og er nú með átta mörk í deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 2 - 1 Keflavík
1-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('24 )
1-1 Josep Arthur Gibbs ('45 , víti)
2-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('80 )
Lestu um leikinn

Hallgrímur Mar Steingrímsson reyndist hetja KA-manna er liðið vann Keflavík 2-1 í 15. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Þar með halda Akureyringar toppbaráttu sinni á lífi.

Marley Blair átti fyrsta hættulega færið fyrir gestina á 5. mínútu en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Það voru heimamenn sem tóku forystuna á 24. mínútu. Elfar Árni Aðalsteinsson vann boltann fyrir utan teig Keflvíkinga, kom honum til hliðar á Hallgrím Mar sem kláraði snyrtilega í fjærhornið.

Undir lok fyrri hálfleiksins fengu Keflvíkingar vítaspyrnu. Joey Gibbs þrumaði boltanum í höndina á Þorra Mar Þórissyni og vítaspyrna dæmd. Joey steig sjálfur á punktinn og sendi Steinþór Má Auðunsson í vitlaust horn.

Heimamenn sköpuðu sér ágætis færi í síðari hálfleiknum og að lokum fór boltinn inn. Hallgrímur Mar aftur á ferðinni eftir sendingu frá Bjarna Aðalsteinssyni. Hallgrímur var í þröngu færi, færði boltann á vinstri fótinn og skaut í fjærhornið. Áttunda mark hans í deildinni.

Jakob Snær Árnason gekk til liðs við KA frá Þór á dögunum og kom inná sem varamaður undir lokin. Siglfirðingurinn var nálægt því að skora í fyrsta leiknum en Davíð Snær Jóhannsson bjargaði á síðustu sekúndu.

KA-menn vinna engu að síður, 2-1 sigur og þriðji sigur liðsins í röð í deildinni. Liðið fer upp fyrir KR og í 4. sæti deildarinnar en liðið er með 26 stig, jafnmörg og Breiðablik. Keflavík er í 8. sæti með 16 stig.
Athugasemdir
banner
banner