fös 04. ágúst 2017 17:35
Ingólfur Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikgreining á Ofurleiknum: Sýnikennsla í sóknarleik
Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson
Vængbakvörðurinn Danilo var mikilvægur í sóknarleik City. Hann átti einnig stóran þátt í fyrsta marki liðsins.
Vængbakvörðurinn Danilo var mikilvægur í sóknarleik City. Hann átti einnig stóran þátt í fyrsta marki liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svona reyndi Manchester City oftar en ekki að reyna finna leikmann í fætur á milli varnar og miðju.
Svona reyndi Manchester City oftar en ekki að reyna finna leikmann í fætur á milli varnar og miðju.
Mynd: Sideline
Annað mark City-manna kom eftir uppspilsleið sem liðið æfði á Laugardalsvelli í gær. David Silva tók djúpt hlaup bakvið vörn West Ham í þann mund sem Sané fékk boltann á vinstri vængnum. Sané lagði boltann í hlaupaleið Silva sem lagði upp mark á Aguero með laglegri fyrirgjöf.
Annað mark City-manna kom eftir uppspilsleið sem liðið æfði á Laugardalsvelli í gær. David Silva tók djúpt hlaup bakvið vörn West Ham í þann mund sem Sané fékk boltann á vinstri vængnum. Sané lagði boltann í hlaupaleið Silva sem lagði upp mark á Aguero með laglegri fyrirgjöf.
Mynd: Sideline
Þjálfararnir Slaven Bilic og Pep Guardiola.
Þjálfararnir Slaven Bilic og Pep Guardiola.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
City fagnar.
City fagnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frammistaða Manchester City í 3-0 sigurleik gegn West Ham á Laugardalsvellinum í dag sýndi að Pep Guardiola, þjálfari liðsins, er með virkilega gott lið í höndunum sem verður vafalaust í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn. Liðið virðist hafa tekið stórstígum framförum en slíkt er þó ekki hægt að fullyrða um fyrr en alvaran hefst.

Fótbolti.net fékk knattspyrnumanninn Ingólf Sigurðsson til þess að leikgreina öfluga frammistöðu Manchester City.

Stanslaus pressa

Varnarleikur City snýst fyrst og fremst um að pressa andstæðinginn eins hátt uppi á vellinum og hægt er. Eftir að hafa tapað boltanum setja leikmenn undir eins pressu á boltamann. Það virkaði nær undantekningalaust (fyrsta markið kom einmitt upp úr pressu Danilo þar sem hann steig fram fyrir bakvörð West Ham) en í þau fáu skipti sem West Ham náði stjórn á boltanum voru leikmenn City fljótir í skipulag á bakvið bolta.

Þegar það gerist verst City með fimm manna varnarlínu, einn djúpan miðjumann, þrír þar fyrir framan og einn í stöðu framherja. Þegar bakverðir West Ham fengu boltann stigu vængbakverðir City upp í pressu og miðvörðurinn þeim megin fór á kantmann West Ham.

City hefur engan áhuga á að vera án boltans og vilja vinna hann eins fljótt og kostur er. Í því samhengi má nefna að varnarlínan nýtti hvert tækifæri til þess að stíga upp með línuna og staðsetja hana við miðju vallarins.

Pressumaður City sem vinnur boltann var ávallt fljótur að koma boltanum frá sér á næsta lausa samherja. Af hverju? Vegna þess að pressumaðurinn er ekki með nokkra yfirsýn yfir völlinn – hann var upptekinn við að pressa – og treystir næsta samherja fyrir að vera búinn að skoða völlinn.



Vasarnir mikilvægir í uppspili

Í uppspili myndar þriggja manna varnarlína City demant með Yaya Toure, djúpum miðjumanni. Þeir leysa úr fyrstu pressu andstæðinganna og þegar annað hvort vinstri eða hægri miðvörðurinn er með tíma á boltann sækir hann að mótherja sínum til þess að koma andstæðingnum úr skipulagi.

Fyrsti valmöguleiki er að spila í svæði á milli varnar og miðju andstæðingsins, vasana, þar sem Gabriel Jesus er oftar en ekki mættur til þess að skila boltanum niður á þriðja manninn, oftast Kevin De Bruyne eða David Silva, sem staðsetja sig í sitthvoru hálfsvæðinu. Þeir sjá völlinn og þræða boltann í gegnum öftustu línuna.

Vængbakverðirnir leika stórt hlutverk í sóknarleiknum. Ef ekki er hægt að spila í gegnum miðjuna fá þeir boltann og reyna skásendingu upp á sóknarmann eða inn á miðjuna. Danilo og Sané eru góðir með bolta og völdu yfirleitt rétta kostinn hverju sinni. Þegar tækifæri gáfust fyrir miðjumennina til að taka djúp hlaup inn fyrir vörnina þegar vængbakverðirnir fá boltann gerðu þeir það óspart. Það var einmitt þannig sem City skoraði annað mark sitt.

Gabriel Jesus fékk að leika lausum hala. Oftar en ekki sótti hann boltann djúpt, fékk boltann og spilaði aftur niður, til þess eins að reyna riðla prýðilega skipulögðu liði West Ham. Pep Guardiola kallaði þó eitt sinn til Gabriel Jesus í leiknum að hann þyrfti að enda uppspilið með því að koma sér inn í box, í stöðu til að skora.

Sveigjanleiki og frjálsræði innan skipulags liðsins skín í gegn. Leikmenn eru ekki bundnir við eina stöðu. Í eitt skipti kom Danilo inn á völlinn þegar Kompany var með boltann og David Silva fór úr hægra hálfsvæðinu yfir í kantsvæði. Þar fékk Silva boltann og sneri fram á við. Til þess að ná slíku frjálsræði þarf góðan leikskilning manna á vellinum.



Sóknarlið upp á tíu

Það verður ekki hjá því komist að nefna þolinmæðina sem býr í liði City. Þeir virða það að vera með boltann undir stjórn og flækja ekki hlutina. Það er þó fjarri að þeir spili boltanum á milli sín bara vegna þess að það er flott að halda boltanum innan liðs – þeir eru ávallt að leita að opnunum og eru mjög sóknarmiðaðir. Þeir vilja hreyfa andstæðinginn með hröðu spili, leika á milli lína, finna vasana og svæði fyrir aftan vörnina og sækja á mörgum mönnum. Lykilatriði í uppspili þeirra er að finna autt svæði.

Pep Guardiola eyðir miklum tíma á æfingasvæðinu í að kenna leikmönnum hugmyndafræði sína. Það er sjaldgæft að sjá jafn skipulagt lið og þetta Manchester City-lið. Hver og einn þekkir hlutverk sitt upp á tíu, hvort sem um er að ræða í vörn eða sókn. Góð leið til að átta sig á skipulögðu sóknarliði er að þau lenda sjaldnar í misskilningi á milli samherja. Allir vita hvernig á að sækja.

City-liðið er fyrst og fremst sóknarlið. Allt snýst um boltann. Íslenskir leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn mega þakka þessa sýnikennslu í sóknarleik. Þar liggur einn helsti vandi fótboltans á Íslandi – við erum ekki alltaf með á hreinu hvað við eigum að gera við boltann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner