Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 05. mars 2020 16:37
Elvar Geir Magnússon
Andri Rafn Yeoman verður með Blikum frá júlí
Andri Rafn Yeoman.
Andri Rafn Yeoman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Hann kemur til okkar í júlí og spilar seinni hluta mótsins," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, um miðjumanninn Andra Rafn Yeoman.

Andri er leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi en hann hélt til Ítalíu síðasta haust þar sem hann stundar nú nám við verkfræði.

Óskar var gestur í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf þar sem hann ræddi meðal annars um stöðu leikmannahóps Breiðabliks.

Kwame Quee var lánaður til Víkings í fyrra. Mun hann spila með Breiðabliki í sumar?

„Það á eftir að koma í ljós. Það er mikill áhugi á honum frá öðrum félögum. Hann er tiltölulega nýkominn aftur frá Síerra Leóne. Við eigum eftir að skoða það. Hann er góður leikmaður," segir Óskar sem er sífellt að hugsa um mögulegar styrkingar.

„Það væri gott að fá kantmann. Annars erum við mjög sáttir með hópinn okkar. Við getum auðveldlega rúllað inn í mótið með þennan hóp en á hverjum degi hugsar þú hvernig hægt sé að styrkja hópinn þinn."

Munur að þurfa ekki að nota næturnar
Í spjalli í þættinum ræðir hann meðal annars um þá breytingu að vera kominn í fullt starf sem þjálfari Breiðabliks en hann var ekki í fullu starfi hjá Gróttu.

„Það er rosalegur munur að þurfa ekki að nota næturnar í að undirbúa sig, klippa, setja upp æfingar og hugsa um taktík," segir Óskar. En hver eru markmið liðsins í sumar?

„Án þess að það hafi verið sett á blað þá held ég að markmið Breiðabliks sé alltaf að vera í toppbaráttu og keppa um titla. Við þurfum að ná að þróa og þroska leik okkar og gera betur í Evrópukeppni."

Í þættinum var einnig áhugaverð umræða um leikmannasölur Breiðabliks en liðið hefur lent í því að mikilvægir hlekkir hafi verið seldir á miðju tímabili. Óskar segir Breiðablik ekki geta ráðið því hvenær erlend félög hafi áhuga á leikmönnum félagsins.

„Við erum að reyna að skipuleggja okkur þannig að þegar leikmenn eru seldir til útlanda þá finni liðið ekki eins mikið fyrir því. Við þurfum að vera aðeins klókari í að gera áætlanir um það og við séum með lausnir þegar leikmenn taka næsta skref. Það er gangur lífsins að bestu leikmennirnir taka skrefin áfram. Þá er bara spurningin hversu vel menn eru búnir undir það," segir Óskar en hægt er að hlusta á nýjasta Fantasy Gandalf þáttinn í spilaranum hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner