Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 05. júní 2020 10:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi Max-deild kvenna: 7. sæti
Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Lára Einarsdóttir
Lára Einarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hulda Björg Hannesdóttir
Hulda Björg Hannesdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna hefst 12. júní næstkomandi. Fótbolti.net mun næstu dagana opinbera spá fyrir deildina í sumar en liðin verða kynnt eitt af öðru næstu dagana.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Þór/KA
8. FH
9. ÍBV
10. Þróttur R.

7. Þór/KA

Lokastaða í fyrra: Eftir Íslandsmeistaratitil 2017 hefur hallað undan fæti hjá Þór/KA. Liðið endaði í 2. sæti 2018 en í fyrra varð 4. sæti niðurstaðan.

Þjálfarinn: Andri Hjörvar Albertsson tók við stjórnartaumunum af Halldóri Jóni Sigurðssyni, Donna, eftir síðast atímabil. Andri var aðstoðarþjálfari Þórs/KA á síðasta tímabili. Bojana Besic, fyrrum þjálfari KR, er Andra til aðstoðar.

Álit Jóa
Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna líkt og síðustu ár. Hér er álit hans á liði Þór/KA.

„Það er auðvitað galið að spá þessu stórveldi í kvennaboltanum svona neðarlega. Þór/KA er eina félagið í efstu deild kvenna sem hefur haldið sér í topp fjórum sætunum að hausti öll árin frá 2008. Það þarf auðvitað ekki að efast um að þær ætla sér að halda því áfram og jafnframt að stinga rækilega upp í spámenn í leiðinni."

„Andri Hjörvar þekkir liðið vel eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Donna undanfarin ár. Hann fékk Bojönu með sér og þar er mikil reynsla og þekking líka. Hún þjálfaði líklega flestar stelpurnar þarna þegar þær voru í yngri flokkunum. Það er spurning hvort Þór/KA sé að breyta svolítið til og ákveðin kynslóðaskipti virðast vera í gangi. Reyndir leikmenn hverfa á braut og svo virðist sem þjálfararnir ætli að treysta meira á það sem kemur upp úr yngri flokkunum á Akureyri. Þó eru þaulreyndir leikmenn þarna áfram eins og Arna Sif sem væri leiðtogi í öllum liðum á Íslandi. Það er heldur betur drjúgt fyrir Þór/KA að halda henni."

Utan topp 4 í fyrsta sinn í þrettán ár?
„Lára Einars, Heiða Ragney, Hulda Björg og Hulda Ósk ásamt fleirum sem hafa unnið stóra sigra fyrir félagið eru þarna líka og eiga eftir að mynda ákveðið hryggjarstykki liðsins. Stephany Mayor og Bianca hverfa á braut og Andrea Mist einnig. Það ásamt því að Lára Kristín og Þórdís Hrönn leiti á önnur mið leiðir af sér að byrjunarlið Þór/KA verður mikið breytt þegar flautað verður til leiks."

„Þórsvöllurinn verður að vera gryfja og stelpurnar að norðan verða líka að safna duglega af stigum í útileikjunum ef þær ætla að enda ofar en þessi spá segir til um. Margir sterkir leikmenn út og fáir inn á móti er ástæðan fyrir því að Þór/KA er spáð því að enda utan topp 4 í fyrsta sinn í 13 ár."


Gaman að fylgjast með: Karen María Sigurgeirsdóttir er ung og gríðarlega efnileg sem hefur verið að minna vel á sig undanfarin tímabil í sóknarlínu Þór/KA. María Catharina Ólafsdóttir Gros gæti líka sprungið út. Svo verður spennandi að sjá Hörpu Jóhannsdóttur á sínu fyrsta tímabili sem aðalmarkvörður í Pepsi Max deildinni.

Komnar
Gaby Guillen frá Kosta Ríka
Lauren Amie Allen frá Tindastóli

Farnar
Andra Mist Pálsdóttir til Oribica Calcio
Bianca Sierra til Tigres
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir í Val
Lára Kristín Pedersen í KR
Sandra Mayor til Tigres
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í KR

Fyrstu leikir Þórs/KA
13. júní Þór/KA - Stjarnan
20. júní Þór/KA - ÍBV
24. júní Valur - Þór/KA

Draumaliðsdeild 50skills
Mundu að gera breytingar á þínu liði í Draumaliðsdeild 50skills. Hægt er að skrá sig í allt sumar. Markaðurinn lokar klukkutíma fyrir fyrsta leik umferðarinnar.
Smelltu hér til að taka þátt í Draumaliðsleiknum!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner