
„Er svekktur að tapa þessum leik, þrátt fyrir mjög góða frammistöðu þá gáfum við þeim tvö ódýr mörk sem varð til þess að við töpuðum þessum leik," sagði Þorlákur Árnason þjálfari Þórs eftir tap gegn Víkingi á Þórsvelli í Mjólkurbikarnum í kvöld.
„Frammistaðan var fín, við höfðum mjög mikla stjórn á þessum leik, varnarlega vorum við mjög góðir, gáfum fá færi á okkur. Við náðum að pressa þá á ákveðnum stöðum sem við ætluðum að gera."
Lestu um leikinn: Þór 1 - 2 Víkingur R.
Þórsarar áttu hættulega spretti í seinni hálfleik.
„Kristófer fær dauðafæri, kemst einn í gegn en annars vissum við að við vorum ekkert að fá gríðarlega mikið af færum en fáum samt opnanir og færi. Þetta var frekar lokaður leikur og agalegt svekkelsi þessi mörk. Á móti kemur að ég var gríðarlega stoltur af mínu liði."
Láki vildi að Arnór Borg hefði fengið sitt annað gula spjald í leiknum.
„Arnór Borg Guðjohnsen fer mjög glaður á koddann þar sem hann átti að fá seinna gula. Miðað við hvernig dómgæslan var og virðingin var fyrir Víkingsliðinu þá ef þetta hefði verið hinumegin þá hefði hann hent einhverjum í okkar liði útaf,"
„Þeir eru með frábært lið og bestu liðin fá meira en önnur lið, það er bara þekkt hvort sem það er á Íslandi eða annarsstaðar."