Það fóru þrír leikir fram í efstu deild í Sádi-Arabíu í dag og í þeim voru skoruð þrettán mörk.
Odion Ighalo kom Al-Wehda yfir snemma leiks gegn Al-Okhdood en það dugði ekki til að sigra, þar sem lokatölur urðu 2-3 fyrir Al-Okhdood sem var sterkara liðið í dag.
Liðin voru jöfn í fallsæti fyrir slaginn en Ighalo og félagar í Al-Wehda eru aðeins með 9 stig eftir 13 umferðir.
Georges-Kevin N'Koudou, fyrrum leikmaður Marseille, Tottenham og Burnley meðal annars, skoraði þá úr vítaspyrnu er Damac gerði 2-2 jafntefli við Al-Feiha.
Habib Diallo, fyrrum leikmaður Strasbourg sem var eftirsóttur af félögum í ensku úrvalsdeildinni, lagði seinna mark Damac upp í jafnteflinu.
Chris Smalling lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Al-Feiha og skoraði Fashion Sakala, fyrrum leikmaður Rangers, fyrra jöfnunarmarkið fyrir liðið.
Smalling og félagar í Al-Feiha eru í næstneðsta sæti deildarinnar með 8 stig eftir 13 umferðir. Damac er í neðri hlutanum með 15 stig.
Að lokum skildu Al-Shabab og Al-Fateh jöfn 2-2 eftir hörkuslag þeirra á milli. Það mátti finna afar öfluga fótboltamenn í byrjunarliðunum þar sem Wesley Hoedt, Giacomo Bonaventura, Daniel Podence og Abderrazak Hamdallah voru allir í byrjunarliði heimamanna í Al-Shabab.
Jason Denayer, fyrrum leikmaður Galatasaray og Lyon, var í byrjunarliði Al-Fateh en þurfti að fara meiddur af velli skömmu fyrir leikhlé. Al-Fateh er botnlið deildarinnar.
Heimamenn í liði Al-Shabab voru sterkari og fengu fleiri færi en leikurinn var galopinn og bauð upp á mikla skemmtun.
Stjörnum prýtt lið Al-Shabab er í fimmta sæti, aðeins tveimur stigum frá Al-Nassr í meistaradeildarsæti.
Al-Shabab er aðeins búið að ná í tvö stig úr síðustu þremur deildarleikjum.
Al-Wehda 2 - 3 Al-Okhdood
1-0 Odion Ighalo ('5)
1-1 C. Bassogog ('32)
1-2 I. Kone ('36)
1-3 J. El-Yamiq ('40, sjálfsmark)
2-3 Craig Goodwin ('58)
Damac 2 - 2 Al-Feiha
1-0 Georges-Kevin N'Koudou ('6, víti)
1-1 Fashion Sakala ('58)
2-1 Francois Kamano ('67)
2-2 Alejandro Pozuelo ('70)
Rautt spjald: Tariq Abdullah, Damac ('78)
Al-Shabab 2 - 2 Al-Fateh
0-1 M. Batna ('51, víti)
1-1 H. Camara ('54)
2-1 M. Al-Thani ('57)
2-2 A. Al-Masoud ('80)
Athugasemdir