
Þorsteinn Halldsórsson þjálfar Íslands var að vonum nokkuð þungur í brún er hann mætti í viðtal við RÚV að loknum 2-0 tapleik Íslands gegn Sviss í Bern á EM kvenna fyrr í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik tók Sviss frumkvæðið í þeim síðari og var það ljóst að Þorsteini fannst það heldur súrt.
Lestu um leikinn: Sviss 2 - 0 Ísland
„Mér fannst vera jafnvægi í leiknum eftir því sem leið á hann. Í seinni hálfleik sérstaklega. Svo bara refsa þær okkur fyrir smá mistök inn á miðsvæðinu sem að verður til þess valdandi að þær skora.“
Sóknarleikur Íslands var bitlaus í kvöld og tókst liðinu ekki að skora frekar en gegn Finnlandi á dögunum. Um uppleggið sóknarlega sagði Þorsteinn.
„Mér fannst í fyrri hálfleik þar sem við vorum að leggja upp með ákveðna hluti í hlaupaleiðum á bakvið þær þar sem við ætluðum ekkert endilega að kýla fram. Við ætluðum að þrýsta aðeins á þær en ætluðum að byrja svolítið langt. Það myndi þýða að þær myndu opnast og þær fóru að falla niður. Þá opnast svæðið fyrir miðjumennina en við bara nýttum það svo illa í fyrri hálfleik. Það var alveg gríðarlega mikið pláss þarna til að spila á bæði Alexöndru og Dagný en við notuðum það bara ekki nógu vel.“
Tapið þýðir að Ísland á ekki lengur möguleika á því að komast upp úr riðlinum og bíður leikur gegn Noregi þar sem ekkert er undir fyrir lið Íslands nema stoltið.
„Auðvitað eru það gríðarleg vonbrigði. Við ætluðum okkur áfram. Það var yfirlýst markmið okkar og við skömmumst okkar ekki fyrir að segja það. Það var það sem við ætluðum okkur en við vorum bara ekki nægjanlega góð í dag til að klára þennan leik. Núna snýst þetta bara um að spila upp á stoltið og vinna Noreg á fimmtudaginn“
Einar Örn Jónsson fréttamaður RÚV í Sviss spurði svo Þorstein út í framtíð hans og hvort hann væri farinn að hugsa um sína stöðu eftir þetta vonbrigðamót en Þorsteinn er með samning út næstu undankeppni.
„Nei ég get nú ekki sagt það en þú kannski færð mig til að hugsa það núna. Ég sest niður með mínum yfirmönnum eftir þetta mót og þar verður bara tekin ákvörðun um það. Það er bara líf þjálfarans og maður þarf bara að hætta ef maður er ekki að standa sig nógu vel og þannig er það bara.“
Athugasemdir