„Mér líður ógeðslega vel. Ég er samt helvíti þreyttur ef ég á að vera hreinskilinn." Segir Már Ægisson, leikmaður Fram, eftir 2-1 sigur á Stjörnunni.
Lestu um leikinn: Fram 2 - 1 Stjarnan
Sigurinn var sanngjarn heilt yfir en Már var besti maður vallarins.
„Ég veit ekki alveg hvað skóp sigurinn. Við vorum orkumeiri og sýndum meiri vilja. Við vorum geggjaðir í dag þó að við vorum ekki eins góðir í fyrri hálfleik þá stóðum við okkur helvíti vel í seinni. "
Már átti flotta fyrirgjöf sem nýjasti leikmaður Fram, Djenairo Daniels, stangaði í netið.
„Þetta var geggjað og það var svo gaman að sjá hvað hann var ánægður. Þetta var fyrsta mark hans fyrir Fram og ekki það seinasta, ég veit það alveg. Hann er að koma vel inn í liðið og er með mikla orku. Hann býst við miklu frá mönnum og er bara frábær gæji."
Már Ægisson er að fara í nám í Bandaríkjunum og spilar ekki meira með Fram í sumar.
„Ég hef þroskast mikið sem leikmaður í sumar undir Rúnari. Ég er búinn að vera frábær í sumar."
Már hefur fengið að prófa nánast allar stöður vallarins undir handleiðslu Rúnars Kristinssonar í sumar.
„Mér finnst það mjög gaman. Það er líka bara alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég er bestur í hægri vængbakverðinum en mér finnst skemmtilegast að vera á miðjunni."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir