Arsenal hyggst gera annað tilboð í Kóreumanninn - Al-Hilal undirbýr tilboð í Bruno Fernandes - Tah undir smásjá Newcastle
   mið 07. maí 2025 16:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umfjöllun
Skipin? Þau eru brennd
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR hefur spilað stórkostlega skemmtilegan fótbolta í byrjun móts.
KR hefur spilað stórkostlega skemmtilegan fótbolta í byrjun móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar fór í frábært viðtal eftir leikinn gegn Breiðabliki. Hann hefur verið mjög léttur í sumar.
Óskar fór í frábært viðtal eftir leikinn gegn Breiðabliki. Hann hefur verið mjög léttur í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er mikil stemning í KR um þessar mundir.
Það er mikil stemning í KR um þessar mundir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður gaman að fylgjast með KR í sumar.
Það verður gaman að fylgjast með KR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR fagnar marki.
KR fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Já, skipin, þau eru brennd. Það eru engin skip eftir í Vesturbænum.

Þetta er frasi sem Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, í upphafi sumars. Óskar sagði eftir leikinn gegn Breiðabliki í vikunni að hans menn hefðu verið að leita að fjórða markinu á 92. mínútu þegar Blikar jöfnuðu metin í blálokin.

En af hverju ekki bara að pakka í vörn og reyna að landa sigrinum þannig?

„Vegna þess að það er bara það sem við erum. Þar liggur sjálfsmynd okkar, að sækja. Ég hef vísað í Hernán Cortés þegar hann brenndi skip 1519 fyrir utan strendur Mexíkó. Menn höfðu ekkert val, þeir þurftu að fara upp á land og sigra Asteka í mikilli undirtölu. Það gildir það sama um þetta. Ég talaði við konuna mína í síðustu viku og hún spurði þar sem við vorum að fara að mæta Íslandsmeisturunum á þeirra heimavelli hvort við ætluðum ekki að fara varkárt inn í leikinn? Ég leit aftur fyrir mig og spurði hana hvort hún sæi einhver skip. Hún sá engin skip. Þá var því svarað, við erum búnir að brenna skipin. Við munum ekki fara niður nema einhver þrýsti okkur niður af krafti eða gæðum sem gerðist í einhverjar þrjár eða fjórar mínútur undir lokin í dag," sagði Óskar eins og frægt er orðið.

Ferskt og ótrúlegt skemmtilegt
Leikur Breiðabliks og KR var einn skemmtilegasti leikur sem hefur verið spilaður í íslenskum fótbolta í mörg ár. Jafnvel í stöðunni 0-0 var stanslaus skemmtun og ekki hægt að líta frá í eina sekúndu. Það sem maður hugsaði þegar maður gekk af Kópavogsvelli í kvöldsólinni á mánudag var hvað þetta hefði verið fáránlega skemmtilegt. Svona eigi fótbolti að vera.

Þetta KR-lið hefur verið ferskur andblær inn í Bestu deildina í sumar. Þeir eru taplausir eftir fimm leiki, með einn sigur og fjögur jafntefli. Það hafa verið að minnsta kosti fjögur mörk í öllum þeirra leikjum og það er alltaf partý ef svo má segja; það er aldrei leiðinlegt að horfa á leiki þeirra. Það er svolítið merkilegt að bera saman Reykjavíkurstórveldin KR og Val þessa stundina, en það virðist vera mjög gaman í KR á meðan það er ekki eins gaman í Val.

KR-liðið elskar sóknarleik, það er þeirra sjálfsmynd. Þeim er í raun sama hvað andstæðingurinn skorar mörg mörk, svo lengi sem þeir skora fleiri. Þetta er ótrúlega skemmtileg hugmyndafræði sem kemur til með að laða fleira fólk að KR og að Bestu deildinni í heild sinni.

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, hrósaði KR eftir leik liðanna á dögunum.

„Þetta voru tvö geggjuð lið. KR-ingarnir hafa spilað vel í sínum leikjum. Þetta er frábært lið og geggjað að hafa svona lið í deildinni," sagði Halldór. „Þetta eru erfiðir leikir fyrir okkur að spila. Við erum vanalega að brjóta á bak lágar blokkir. Þetta var mjög ferskur andvari inn í leikjaplanið okkar og margt sem við getum lært af þessu eins og öðrum leikjum."

Með alla lykla í Vesturbænum
KR er með sjö stig sem er það sama og liðið var með eftir fimm umferðir í fyrra, en maður finnur það núna að það er eitthvað að gerast í Vesturbænum. Það er einhver biluð vegferð í gangi og það virðast allir vera að dansa í sama takt; leikmenn, þjálfarar, stjórn og stuðningsmenn. Stuðningurinn við lið KR í byrjun móts hefur verið til fyrirmyndar og fólk trúir.

Óskar hefur alltaf verið skemmtikraftur í fótboltanum með sinn leikstíl. Þegar hann byrjaði að þjálfa meistaraflokk Gróttu fyrir nokkrum árum þá var hann að spila ótrúlega skemmtilegan og áhættusækinn fótbolta sem virkaði frábærlega; Grótta fór upp úr 2. deild í þá efstu á mettíma. Svo tók hann við Breiðabliki og þar var öðruvísi verkefni þar sem fótboltinn var kannski ekki alveg jafn áhættusækinn eftir því sem leið á. En hann landaði Íslandsmeistaratitli í Kópavoginum.

Núna er Óskar með alla lykla í Vesturbænum og fær að gera hlutina eftir sínu höfði. Og tilfinningin er sú að hann hafi aldrei tekið fótboltann sinn lengra en hann er að gera akkúrat núna. KR-liðið er að spila alveg ótrúlega áhættusækinn fótbolta með uppalda KR-inga í stóru hlutverki. Utan vallar er Óskar líka í frábærum gír eins og sást í viðtalinu sem var tekið við hann eftir leikinn gegn Breiðablik.

KR verður líklega ekki Íslandsmeistari í ár og það er ekki markmiðið strax. „Við erum í uppbyggingu og það er ekki til það töfraduft sem hægt er að strá yfir svo KR verði aftur í allra fremstu röð á einu augnabliki. Ég bið þá um að fara út fyrir þægindarammann með leikmönnunum, umvefja ófullkomleikann sem þeir munu upplifa í hverjum leik og njóta þess að sjá liðið þroskast og dafna í sumar," sagði Óskar fyrir tímabilið. Markmiðið er að þróa þessa skemmtilegu hugmyndafræði áfram og að leikmennirnir verði betri innan sem utan vallar.

En eftir nokkur ár, þá verður það líklega markmiðið að blanda klikkuðum leikstíl, frábærri liðsheild og titlum saman. Kannski tekst það ekki, en þetta er allavega fáránlega skemmtilegt og það er stuð í Vesturbænum. Í sumar er KR liðið til að fylgjast með í Bestu deildinni og er óhætt mæla með því að stilla inn á leiki þeirra.
Athugasemdir
banner
banner
banner