„Ég á ekki til eitt aukatekið orð, þetta er svo geðveikt," sagði Sindri Kristinn Ólafsson markvörður Keflavíkur eftir að liðið vann sér sæti í Pepsi-deildinni að ári með 3-0 sigri á Gróttu í kvöld.
Lestu um leikinn: Keflavík 3 - 0 Grótta
„Loksins, ég fór niður með liðinu árið 2015 og er búinn að fara með þeim aftur upp, þetta er bara geðveikt."
Markalaust var í hálfleik í dag og virtist sem Keflavíkurliðið ætlaði ekki að komast í gang til að klára dæmið.
„Við vorum lélegir í fyrri hálfleik," sagði Sindri. „En við áttum samt okkar færi og þeir áttu hættulegri færi ef eitthvað var," hélt hann áfram en þrisvar í röð varði hann á ótrúlegan hátt frá Gróttumönnum.
„Já það er gott að geta hjálpað liðinu en ég snerti varla boltann í seinni hálfleik. Laugi (Guðlaugur Baldursson þjálfari) lét okkur létt heyra það í hálfleik. Við erum búnir að skora í öllum leikjunum nema einum og é gvissi að við myndum skora. Hann sagði að við værum á hælunum og værum búnir að vera lélegir og þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Við hlustuðum og komum allt öðruvísi út í seinni hálfleikinn."
Sindri sem er einn efnilegasti markvörður landsins fór niður með liðinu haustið 2015 en á síðasta ári ákvað Þorvaldur Örlyggson þjálfari liðsins að fá Beiti Ólafsson í markið og setti Sindra á bekkinn. Guðlaugur Baldursson núverandi þjálfari gaf honum svo traustið.
„Ég fékk eiginlega engan spilatíma í fyrra en ég er mjög þakklátur fyrir að hafa lent í því sem ég lenti í í fyrra," sagði Sindri.
„Ég lenti í miklum erfiðleikum en náði að yfirstíga það mjög vel með hjálp stjórnar. Þeir hjálpuðu mér mikið og líka Ómar markmannsþjálfari. Ég á honum endalaust að þakka. Það er búið að vera frábært að fá sénsinn núna. Laugi sagði fyrsta daginn sem ég mætti 'nú færð þú tíma til að sýna þig og við gefum þér góðan tíma. Þetta er undir þér komið'," sagði Sindri.
„Þetta tók rosalega mikið á mig og var mjög erfitt. Ég átti erfitt með sjálfan mig í fyrra og ég er þakklátur fyrir að hafa lent í þessu. Ég væri ekki í eins góðu formi og væri ekki búinn að spila svona vel ef ég hefði ekki lent í þessu í fyrra."
Athugasemdir