Man City komið með tilboð í Éderson - Man Utd vill selja Lindelöf og Eriksen - Chelsea með í baráttunni um Doué - Úrvalsdeildarfélög berjast um...
banner
   mán 08. júlí 2024 23:22
Ívan Guðjón Baldursson
3. deild: ÍH kom til baka með átta mörkum - Víðir á toppinn
Mynd: ÍH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru þrír leikir fram í 3. deildinni í kvöld þar sem var sérstaklega mikið fjör í Kópavogi, þar sem KFK tók á móti ÍH í Fagralundi.

Heimamenn í KFK komust í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik en ÍH tókst að minnka muninn niður í eitt mark fyrir leikhlé, og staðan því 3-2 þegar menn gengu til búningsklefa. Björgvin Stefánsson, fyrrum markavél KR, skoraði eitt marka KFK.

Brynjar Jónasson, sem lék með KFK í fyrra, jafnaði leikinn í upphafi síðari hálfleiks og var þá kominn með tvennu, en skömmu síðar var Hamdja Kamara rekinn af velli í liði heimamanna.

Tíu leikmenn KFK réðu engan veginn við gestina úr Hafnarfirði sem gjörsamlega völtuðu yfir Kópavogsliðið. Dagur Óli Grétarsson og Kristófer Dan Þórðarson settu sitthvora tvennuna á ellefu mínútna kafla til að breyta stöðunni í 3-7, áður en Brynjar Jónasson fullkomnaði þrennuna gegn sínum fyrrum liðsfélögum á 87. mínútu leiksins.

Lokatölur urðu því 3-8 fyrir ÍH, sem er um miðja deild með 14 stig eftir 11 umferðir - einu stigi á eftir KFK.

Víðir lenti þá ekki í vandræðum á heimavelli gegn Augnabliki, en staðan var þó markalaus allt þar til á 60. mínútu þegar Einar Örn Andrésson og Bessi Jóhannsson skoruðu sitthvort markið.

Markús Máni Jónsson innsiglaði 3-0 sigur á 74. mínútu og eru Garðsmenn á toppi deildarinnar sem stendur, með 24 stig eftir 11 umferðir. Þeir eru einu stigi fyrir ofan Kára sem á leik til góða.

Elliði klifrar að lokum upp um fjögur sæti með sigri sínum á botnliði KV. Lokatölur þar urðu 3-2 samkvæmt úrslitaveitu Úrslit.net en upplýsingar um markaskorara eiga eftir að berast.

Elliði komst í þriggja marka forystu og tókst Vesturbæingum að minnka muninn niður í eitt mark undir lokin, en þeir fundu ekki jöfnunarmarkið.

KV er með 6 stig eftir 11 umferðir og virðist stefna niður um deild. Elliði er í fimmta sæti, með 16 stig.

KFK 3 - 8 ÍH
1-0 Alejandro Barce Lechuga ('15 )
2-0 Stefán Ómar Magnússon ('28 )
3-0 Björgvin Stefánsson ('41 )
3-1 Kristófer Dan Þórðarson ('44 )
3-2 Brynjar Jónasson ('45 )
3-3 Brynjar Jónasson ('48 )
3-4 Dagur Óli Grétarsson ('56 , Mark úr víti)
3-5 Dagur Óli Grétarsson ('58 )
3-6 Kristófer Dan Þórðarson ('61 )
3-7 Kristófer Dan Þórðarson ('67 )
3-8 Brynjar Jónasson ('87 )
Rautt spjald: Hamdja Kamara, KFK ('54)

Víðir 3 - 0 Augnablik
1-0 Einar Örn Andrésson ('60 )
2-0 Bessi Jóhannsson ('63 )
3-0 Markús Máni Jónsson ('74 )

Elliði 3 - 2 KV
1-0 Markaskorara vantar ('8)
2-0 Markaskorara vantar ('48)
3-0 Markaskorara vantar ('52)
3-1 Markaskorara vantar ('58)
3-2 Markaskorara vantar ('81)
Athugasemdir
banner
banner
banner