Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 08. desember 2019 14:08
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rifjar upp tíma Ljungberg hjá West Ham - Eggert fékk hann
Ljungberg og Eggert.
Ljungberg og Eggert.
Mynd: Getty Images
Svíinn mun á morgun stýra Arsenal gegn West Ham.
Svíinn mun á morgun stýra Arsenal gegn West Ham.
Mynd: Getty Images
Freddie Ljungberg er í dag bráðabirgðastjóri Arsenal, en hann er einnig fyrrum leikmaður liðsins.

Á fyrstu 13 árunum sem atvinnumaður í fótbolta spilaði Ljungberg aðeins fyrir tvö félög: Halmstad í Svíþjóð og Arsenal. Hann yfirgaf Arsenal árið 2007 og spilaði fótbolta til 2014. Á síðustu sjö árum ferilsins var hann á mála hjá sex félögum um víða veröld.

James McNicholas á The Athletic rifjar í dag það upp þegar Ljungberg fór til West Ham frá Arsenal.

Þegar Thierry Henry fór til Barcelona þá ákvað Ljungberg að yfirgefa Arsenal eftir tæplega tíu ára veru hjá félaginu. Hann skipti um félag í Lundúnum og fór yfir til West Ham, þar sem Íslendingar réðu ríkjum.

Eggert Magnússon, þáverandi stjórnarformaður West Ham, var ástæðan fyrir því að Ljungberg valdi West Ham. Hann sagði það að minnsta kosti.

„Ástæða þess að ég vildi fara til er Magnússon. Hann vill fara með West Ham á toppinn. Hann er tilbúinn að fara á markaðinn og kaupa frábæra leikmenn og blanda þeim saman við unga leikmenn frá akademíunni," sagði Ljungberg, en þegar Svíinn var kynntur til leiks hjá West Ham var Eggert með honum, ekki knattspyrnustjórinn Alan Curbishley.

West Ham gaf leikmanni sem var að verða 31 árs fjögurra ára samning og 85 þúsund pund í vikulaun. „Bættu við 3 milljón punda verðmiðanum og kaupin á Ljungberg reyndust ein dýrustu mistökin í þeirri ringulreið sem stjórnartíð Magnússonar var," McNicholas.

Eftir að Eggert Magnússon og Björgólfur Guðmundsson keyptu West Ham árið 2006 þá fengu þeir leikmenn eins og Carlos Tevez, Javier Mascherano, Julien Faubert, Scott Parker og Craig Bellamy til félagsins. Svo kom Ljungberg.

Ljungberg kom til West Ham sem stjarna og liðsfélagarnir tóku eftir því. „Hann var svalasti náungi sem við höfðum séð," sagði Dean Ashton, fyrrum sóknarmaður West Ham, við The Athletic. „Hann var vanur að mæta með svona stóra hatta á æfinga... það var klárlega ára í kringum hann."

Ljungberg var fyrirliði í sínum fyrsta leik með West Ham. Hann spilaði hægra megin á miðjunni í 2-0 tapi gegn Manchester City. Í staðinn fyrir Ljungberg og Bellamy, þá voru það nýir leikmenn Man City, Rolando Bianchi og Geovanni, sem tóku fyrirsagnirnar í blöðunum.

Stuttur ferill hans hjá West Ham var ekki merkilegur. Hann skoraði tvö mörk í 26 leikjum á einu tímabili áður en hann fór til Seattle Sounders í MLS-deildinni. Stærsta vandamál hans hjá West Ham var líkamlegt ásigkomulag - meiðsli settu strik í reikninginn. Hann hélt sig mikið út af fyrir sjálfan og ekki leit út fyrir það að hann ætlaði að festa rætur sínar hjá West Ham.

Sumarið 2008 náði Ljungberg og West Ham samkomulagi um riftun á samningi Svíans. „Þetta gekk bara ekki upp hjá honum," segir Ashton.

Þess má geta að Eggert hætti hjá West Ham í desember 2007 og hætti Björgólfur Guðmundsson árið 2009.

Ljungberg er eins og áður segir í dag bráðabirgðastjóri Arsenal. Hann mun annað kvöld stýra liðinu gegn sínu fyrrum félagi, West Ham.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner