Aston Villa reynir við Cunha - Barcelona getur ekki fengið Rashford - Duran til Sádi-Arabíu?
   mán 09. desember 2024 11:27
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tveir Gróttumenn snúa heim (Staðfest)
Mættir heim.
Mættir heim.
Mynd: Grótta
Grótta hefur endurheimt þá Daða Má Patrek Jóhannsson og Einar Tómas Sveinbjarnarson fyrir komandi átök í 2. deild.

Daði Már þótti mjög efnilegur á sínum tíma og varð árið 2016 yngsti leikmaðurinn til að spila með meistaraflokki í sögu Gróttu en Orri Steinn Óskarsson sló svo það met tveimur árum síðar. Hann yfirgaf Gróttu eftir tímabilið 2020 og hefur leikið með Augnabliki og Kríu síðan.

„Daði Már er 23 ára gamall og þótti einn efnilegasti knattspyrnumaður Gróttu í yngri flokkunum. Sumarið 2016 varð hann yngsti leikmaðurinn til að spila með meistaraflokki og sló þar við Viggó Kristjánssyni sem átti metið. Það var svo Orri Steinn Óskarsson sem tók metið af Daða tveimur árum síðar, rétt fyrir 14 ára afmælisdaginn sinn, og það met stendur enn. Á miðárinu í 2. flokki lenti Daði í þrálátum veikindum sem tengdust miltanu og gat hann því lítið æft og spilað í tvö heil ár. Um tvítugt náði hann heilsu á ný og hefur síðustu ár leikið 48 meistaraflokksleiki í 3.,4. og 5. deild."

Einar Tómas er 25 ára í dag en 14 ára gamall kom hann í Gróttu eftir að hafa verið í Svíþjóð. Hann lenti í því óláni að brjóta hnéskel á sínum tíma sem setti strik í reikninginn.

Hann hefur leikið með KH, Kríu og KV frá því að hann yfirgaf Gróttu eftir tímabilið 2018.

„Einar Tómas er 25 ára gamall en hann kom til Gróttu 14 ára gamall eftir að hafa slitið barnskónum í Svíþjóð. Einar bankaði á dyr meistaraflokks veturinn 2017/18 og var í byrjunarliði Gróttu í öðrum keppnisleik liðsins undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar og Halldórs Árnasonar. Það var önnur umferð bikarkeppninnar, Selfoss á útivelli, en í þeim leik varð Einar fyrir því óláni að brjóta hnéskel og spilaði ekki meiri fótbolta það árið, og raunar ekki aftur með Gróttu. Hann hefur nú leikið samtals 74 meistaraflokksleiki í 2., 3. og 4. deild."

Magnús Örn Helgason, yfirmaður fótboltamála hjá Grótta, hafði eftirfarandi að segja í tilefni tíðinda dagsins.

„Báðir tveir hafa staðið sig vel á æfingum það sem af er hausti. Það er auðvitað dásamlegt að hæfileikaríkir knattspyrnumenn ákveði að skora á sjálfan sig með þessum hætti - snúa aftur heim, æfa meira en áður og sjá hvar mörkin liggja. Við þurfum að sýna þolinmæði en ég er viss um að bæði Einar og Daði geti hjálpað Gróttuliðinu næsta sumar."

Grótta endaði í 11. sæti Lengjudeildarinnar í sumar og féll niður í 2. deild. Rúnar Páll Sigmundsson er þjálfari liðsins.

Athugasemdir
banner
banner