
Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar var í áhugaverðu spjalli við Sæbjörn Steinke eftir leik liðsins gegn Stjörnunni í gær.
Arnór Gauti Ragnarsson skoraði sitt fyrsta mark í sínum fyrsta leik í endurkomunni í Mosfellsbæinn. Þá er Andri Freyr Jónasson einnig snúinn aftur heim. Magnús er ánægður að fá Mosfellinga í liðið.
„Það er frábært að fá hann aftur heim og hann skoraði gott mark, vonandi fyrsta af mörgum," sagði Magnús.
„Erum búnir að fá hann og Andra Frey úr Fjölni, búnir að fá tvo öfluga mosfellska framherja heim sem er bara geggjað. Báðir framherjar sem geta skorað helling af mörkum og hjálpað okkur í baráttunni sem er framundan. Frábært að fá uppalda stráka heim og ég hlakka til að fylgjast með þeim í sumar," sagði Magnús.
Rasmus Christiansen er einnig mættur en hann bar fyrirliðabandið í fjarveru Aron Elí Sævarssonar.
„Frábært að fá Rasmus líka. Hann gefur okkur mikið, bæði sem karakter og fótboltamaður. Hann er búinn að koma frábærlega inn í þetta hjá okkur og það verður gaman að sjá hann þegar hann verður kominn í ennþá betra form," sagði Magnús en Rasmus er ný byrjaður að æfa með liðinu.