Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 11. maí 2023 09:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Patrik um meiðslin alvarlegu: Auðvitað eru þetta hræðilegar fréttir
Patrik Johannesen.
Patrik Johannesen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, og Patrik ræða málin.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, og Patrik ræða málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og greint var frá í gær þá er Patrik Johannesen, leikmaður Breiðabliks, með slitið krossband. Hann spilar því ekki meira á tímabilinu.

Patrik meiddist í leik gegn Stjörnunni í síðustu viku en hann þurfti að fara af velli í fyrri hálfleik. Hann reyndi að stöðva Eggert Aron Guðmundsson, leikmann Stjörnunnar, á sprettinum en varð sjálfur fyrir þessum hræðilegu meiðslum.

„Ég fann fyrir einhverju strax, en ég vissi ekki að þetta væri svona alvarlegt," segir Patrik í samtali við Fótbolta.net en þetta eru verstu meiðsli sem hann hefur orðið fyrir á ferlinum. Áður en þetta gerðist þá hafði hann mest verið frá í tvo mánuði vegna meiðsla.

„Ég teygði of mikið á hnénu en þetta hafði ekkert með völlinn að gera. Auðvitað eru þetta hræðilegar fréttir þar sem tímabilið er bara rétt að byrja og ég hafði hlakkað mikið til að taka þátt í því með Breiðabliki."

Leið eins og hann væri að fara gera stóra hluti
Patrik er 27 ára gamall færeyskur landsliðsmaður sem byrjaði fyrstu fimm leiki Breiðabliks á tímabilinu. Hann varð í vetur dýrasti leikmaður sem keyptur hefur verið milli félaga á Íslandi þegar Breiðablik keypti hann frá Keflavík.

„Ég fer í aðgerð eins fljótt og mögulegt er. Svo mun ég fara heim til Færeyja í nokkra daga en eftir það byrjar endurhæfingin á fullu með læknateyminu og styrktarþjálfaranum hjá Breiðabliki."

„Ég hef notið þess mikið að vera í Breiðabliki hingað til. Ég finn það að þetta er búið að vera skref upp á við fyrir mig frá því ég var í Keflavík og það hefur tekið mig tíma að venjast öllu hjá félaginu. En mér líður eins og ég hafi verið að fara að gera stóra hluti á þessu ári áður en ég meiddist. Ég hef trú á því að við getum unnið deildina og það er okkar markmið. Við vitum að það verður erfitt en ég veit að liðið mun gera allt sem það getur til að ná því," sagði Patrik að lokum.

Færeyingurinn var búinn að skora eitt mark í Bestu deildinni fyrir Breiðablik áður en hann meiddist. Hann virtist vera að finna taktinn með nýju liði áður en hann meiddist en framundan er löng og ströng endurhæfing.
Athugasemdir
banner