Ísak Andri Sigurgeirsson átti flott tímabil með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta ári. Ísak byrjaði sérstaklega vel og var á meðal bestu leikmanna deildarinnar, en svo fjaraði undan hans spilamennsku og hún var í takt við spilamennsku liðsins á lokakaflanum. Hann endaði með þrjú mörk skoruð og sex stoðsendingar.
Hann hefur verið orðaður í burtu frá félaginu og eru líkur á að hann spili ekki með liðinu í B-deildinni. Fótbolti.net ræddi við Ara Frey Skúlason á dögunum en hann er í þjálfarateymi Norrköping. Hann var spurður út í Ísak Andra.
Hann hefur verið orðaður í burtu frá félaginu og eru líkur á að hann spili ekki með liðinu í B-deildinni. Fótbolti.net ræddi við Ara Frey Skúlason á dögunum en hann er í þjálfarateymi Norrköping. Hann var spurður út í Ísak Andra.
Hvernig var að sjá hann spila í sumar og telur þú einhverjar líkur á því að hann verði áfram hjá félaginu?
„Það er erfitt að segja, hann var virkilega frábær fyrri hlutann á tímabilinu og drifkraftur í liðinu. Þegar gengið okkar byrjaði að dala þá dalaði hann svolítið með því," segir Ari Freyr.
„Eins og hann sagði sjálfur í viðtalinu þá átti hann svolítið erfitt uppdráttar síðustu leikina. Hann er frábær einn á einn, getur notað vinstri og hægri og er góður slúttari. Það myndi henta honum best að fara í gott sóknarsinnað lið. Það var eitthvað talað um það í sumar hvort hann hefði átt að fara eða svoleiðis, ég veit ekki hvort það komu einhver tilboð í hann."
„Það tók sinn tíma fyrir hann að komast inn í sænsku úrvalsdeildina, hann var magnaður á Íslandi áður en hann fór út og þurfti að aðlagast. Hann hefur klárlega þroskast mjög mikið, sérstaklega á þessu tímabili, bæði sem leikmaður og líka sem persóna."
„Ég sé fyrir mér að það verði erfitt fyrir okkur að halda honum ef það kemur gott tilboð í hann og ég held hann sé of góður fyrir næstefstu deild í Svíþjóð."
„En ég myndi ekkert hata að hafa hann, fá að vinna með honum áfram og hjálpa honum á hans vegferð. Við unnum mjög náið saman í ár. Hann á klárlega skilið að vera í efstu deild, það verður fróðlegt að sjá hvaða klúbbar eru tilbúnir að borga. Ég hef reyndar ekki hugmynd um hver verðmiðinn er á honum," segir Ari Freyr að lokum.
Athugasemdir





