Carrick gæti stýrt æfingu Man Utd á miðvikudag - Everton vill White frá Arsenal - Dortmund fylgist með Bobb
   mán 12. janúar 2026 09:35
Elvar Geir Magnússon
Keypti félagið eftir fjögurra daga fyllerí - „Man ekki eftir því“
Rob Smethurst.
Rob Smethurst.
Mynd: Macclesfield
Alvöru bikarævintýri.
Alvöru bikarævintýri.
Mynd: Macclesfield FC
Ævintýrin gerast í elstu og virtustu bikarkeppni heims en um helgina vann utandeildarliðið Macclesfield magnaðan 2-1 sigur gegn ríkjandi bikarmeisturum Crystal Palace.

Stjórnarformaður Macclesfield, Rob Smethurst, keypti félagið í miðjum Covid heimsfaraldrinum og hann var ekki edrú þegar hann gekk frá kaupunum. Hann segist hreinlega ekki hafa munað eftir því að hafa keypt félagið.

„Í hreinskilni þá drakk ég ótæpilegt magn af áfengi á þessum tíma, ég var mættur á barinn klukkan tvö um daginn og var síðasti maður út," segir Smethurst.

„Ég var búinn að vera á þannig fylleríi í fjóra daga, þetta var algjört brjálæði. Félagi minn kom að mér og sagði að Macclesfield fótboltafélagið væri til sölu og ég var búinn að kaupa það sólahring síðar. Ég var ekki með neina viðskiptaáætlun og enga reynslu af því að reka fótboltafélag."

Smethurst hafði efnast á því að selja farsælt bílasendinga-app til Auto Trader, keypti Macclesfield og eyddi fjórum milljónum punda í að lagfæra Moss Rose, heimavöll félagsins.

„Sætin voru brotin, glerið var brotið, arfi á vellinum og sprungur í stéttinni. Ég hugsaði: 'Hvað í andskotanum er ég búinn að kaupa?' - Staðurinn var í rúst," segir Smethurst sem lét meðal annars leggja gervigras á völlinn.

„Það bjargaði lífi mínu að hafa keypt þetta félag. Það hefur tekið yfir allt saman. Það gaf mér eitthvað annað að gera en að sitja í herberginu og horfa á Netflix. Ég berst fyrir félagið. Ástríðan og samheldnin í fótboltanum er ólýsanleg. Ég labba um völlinn og 4 þúsund manns klappa fyrir mér."

Smethurst hefur fylgt Macclesfield upp um tvær deildir í enska stiganum og er liðið nú í sjöttu efstu deild.


Athugasemdir
banner
banner