Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   lau 12. nóvember 2022 08:52
Elvar Geir Magnússon
8 dagar í HM - HM á Ítalíu 1990
Rudi Völler og Andreas Brehme hressir og kátir.
Rudi Völler og Andreas Brehme hressir og kátir.
Mynd: Getty Images
Stund milli stríða hjá Roger Milla.
Stund milli stríða hjá Roger Milla.
Mynd: Getty Images
Paul Gascoigne í tárum eftir að England féll úr leik.
Paul Gascoigne í tárum eftir að England féll úr leik.
Mynd: Getty Images
Brehme skoraði sigurmark úrslitaleiksins.
Brehme skoraði sigurmark úrslitaleiksins.
Mynd: Getty Images
Heimsmeistarar Vestur-Þýskalands.
Heimsmeistarar Vestur-Þýskalands.
Mynd: Getty Images
Lothar Matthäus mættur með styttuna heim.
Lothar Matthäus mættur með styttuna heim.
Mynd: Getty Images
Markakóngurinn Salvatore Schillaci með blómvönd.
Markakóngurinn Salvatore Schillaci með blómvönd.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.HM á Ítalíu 1990
Ítalía hélt HM í annað sinn en þessi keppni er talin ein sú slakasta í sögunni. Meðalfjöldi marka er enn þann dag í dag sá lægsti frá upphafi. Ítalía lagði mikið í umgjörð keppninnar, allir leikvangar voru endurnýjaðir og þá var hinn frægi San Siro leikvangur reistur fyrir mótið. Mikil bjartsýni ríkti meðal heimamanna sem unnu riðil sinn.

Skar sig með hnífsblaði
Áður en að mótinu sjálfu kom gekk ýmislegt á í undankeppninni. Mexíkó fékk ekki að taka þátt vegna þess að þjóðin hafði sent of gamla leikmenn til að keppa á HM unglingalandsliða.

Þá var Síle dæmt úr leik eftir stórfurðulega uppákomu í leik gegn Brasilíu. Leikmenn Síle gengu af velli þegar staðan var 1-0 fyrir Brasilíu og markvörðurinn Roberto Rojas var borinn af velli blóðugur. Hann sagðist hafa fengið flugeld úr stúkunni í andlitið en síðar sást á myndbandi að um leikaraskap hafði verið að ræða. Rojas skar sig sjálfur með hnífsblaði sem hann fékk frá sjúkraþjálfara liðsins og festi með límbandi á úlnliðinn. Rojas var dæmdur í ævilangt bann.

Roger Milla var hættur en svaraði kallinu
Það urðu heldur betur óvænt úrslit í fyrstu umferð B-riðils þar sem Heimsmeistarar Argentínu lágu í valnum gegn Kamerún 1-0 og Rúmenar lögðu Sovétmenn 2-0. Sérstaklega vakti athygli að mark Kamerún kom þegar liðið lék með tíu menn gegn ellefu eftir rautt spjald.

Kamerúnar fögnuðu sigrinum með því að fá sér tertu sem var í laginu eins og verðlaunastyttan á HM. Þeir unnu svo Rúmeníu þar sem hinn 38 ára Roger Milla skoraði tvívegis í 2-1 sigri. Milla hafði lagt skóna á hilluna 1989 en varð að ósk landsliðsþjálfarans sem bað hann um að taka þátt á HM. Kamerún vann B-riðil.

Kameldýr á æfingasvæðinu
V-Þýskaland lék í D-riðli og sýndi strax að liðið var sigurstranglegt á mótinu þegar það vann 4-1 sigur gegn Júgóslavíu. Svo lagði það Sameinuðu arabísku furstadæmin 5-1. Það útspil forráðamanna furstadæmana að láta tíu kameldýr vera í kringum æfingasvæðið til að láta leikmenn líða eins og þeir væru heima hjá sér misheppnaðist. Liðið fékk ekki stig.

Þjóðhátíð braust út í Kólumbíu þegar liðið jafnaði í blálokin gegn V-Þýskalandi. Þau úrslit þýddu að bæði lið komust áfram ásamt Júgóslavíu.

Rijkaard hrækti á Völler
Í 16-liða úrslitum vann Argentína 1-0 sigur á Brasilíu þó mótherjarnir hafi sótt nær látlaust. V-Þjóðverjar unnu 2-1 sigur gegn Hollandi í sögulegum leik. Hollendingurinn Frank Rijkaard varð sér til skammar. Hann hrækti tvisvar á Rudi Völler á 22. mínútu en þeim tveimur lenti saman og báðir fengu að sjá rauða spjaldið. V-Þjóðverjar tóku leikinn í sínar hendur eftir þetta og unnu 2-1 sigur.

Markvörðurinn Sergio Goycochea var hetja Argentínu í 8-liða úrslitum. Hann varði tvær spyrnur gegn Júgóslavíu í undanúrslitum eftir að staðan hafði verið markalaus. Leikurinn einkenndist af leikaraskap en stærstan hluta hans voru Argentínumenn manni fleiri. Þeir höfðu heppnina með sér enn og aftur.

V-Þjóðverjar mættu Tékkóslóvakíu í 8-liða úrslitum og unnu verðskuldað, þeir voru betri allan leikinn en markið sem réði úrslitum kom þó úr vítaspyrnu frá Lothar Matthäus.

Tár féllu í klefa Englands
Allar fjórar þjóðirnar sem léku í undanúrslitum áttu Heimsmeistaratitil að baki. Heimamenn í Ítalíu höfðu ekki fengið á sig mark þegar þeir mættu Argentínu. Salvatore Schillaci kom Ítalíu yfir í leiknum en Claudio Caniggia jafnaði 1-1 og kom leiknum í vítaspyrnukeppni þar sem Goycoechea varði tvær spyrnur og tryggði Argentínu 4-3 sigur.

V-Þýskaland mætti Englandi í skemmtilegum, vel spiluðum og dramatískum leik. Andreas Brehme kom Þjóðverjum yfir en Gary Lineker jafnaði. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni þar sem Stuart Pearce og Chris Waddle brást bogalistin og V-Þýskaland vann 4-3. Tár féllu í herbúðum Englands en enginn tók tapið eins nærri sér og Paul Gascoigne sem var talinn besti ungi leikmaðurinn á mótinu.

Úrslitaleikur: V-Þýskaland 1 - 0 Argentína
1-0 Andreas Brehme (víti '85)

Sömu lið og léku til úrslita fjórum árum áður. Þá vann Argentína en nú kom V-Þýskaland fram hefndum í úrslitaleik sem var alls ekki eftirminnilegur. Argentína ætlaði greinilega að reyna að koma leiknum í vítaspyrnukeppni en það tókst ekki. Argentínumaðurinn Pedro Monzón fékk rautt spjald og Roberto Sensini fékk dæmda á sig vítaspyrnu rétt fyrir leikslok og V-Þýskaland tryggði sér sigur undir stjórn Franz Beckenbauer.

Diego Maradona fékk morðhótun í gegnum síma tveimur dögum fyrir úrslitaleikinn og öflugt lögreglulið gætti hans. Maradona sagði að Ítalir væru að reyna að taka sig úr jafnvægi. Tilfinningarnar báru hann ofurliði eftir tapið í úrslitaleiknum og hann grét.

Eins og áður sagði var ekki mikið skorað á HM enda voru reglurnar teknar í gegn eftir mótið. Þrjú stig voru gefin fyrir sigur í stað tveggja og bannað var að senda aftur á markvörð til að tefja leikinn.

Leikmaðurinn: Lothar Matthäus
Var valinn besti fótboltamaður Evrópu 1990. Þessi mikli leiðtogi er leikjahæsti leikmaður þýska landsliðsins frá upphafi og Diego Maradona sagði hann hafa verið erfiðasta andstæðing sem hann hafi mætt. Matthäus fór í þjálfun og sjónvarpsmennsku eftir að ferlinum lauk.

Markahrókurinn: Salvatore Schillaci
Schillaci var leikmaður Juventus þegar mótið fór fram en hann varð markakóngur með sex mörk. Hann kom inn sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum Ítalíu en var svo í byrjunarliðinu eftir það. Í bronsleiknum gegn Englandi skoraði hann sigurmarkið. Schillaci ólst upp hjá fátækri fjölskyldu en fótboltahæfileikarnir komu fljótt í ljós.

Leikvangurinn: Ólympíuleikvangurinn í Róm
Leikvangurinn var endurbyggður fyrir keppnina en 74 þúsund áhorfendur voru á úrslitaleiknum. Um er að ræða heimavöll Roma og Lazio auk þess sem hann hefur verið notaður fyrir ítalska landsliðið í ruðningi, er aðal frjálsíþróttaleikvangur landsins og þar hafa farið fram stórir tónleikar.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978
HM á Spáni 1982
HM í Mexíkó 1986
HM á Ítalíu 1990

Frá úrslitaleiknum 1990:


Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir
banner
banner