Calum McFarlane verður áfram á hliðarlínunni hjá Chelsea þegar liðið mætir Fulham í úrvalsdeildarslag á miðvikudagskvöldið. Hann er bráðabirgðaþjálfari liðsins eftir brottför Enzo Maresca á nýársdag.
Liam Rosenior var í London í dag til að funda með stjórnendum Chelsea sem vilja ráða hann til starfa. Allt bendir til þess að Rosenior verði ráðinn til Chelsea um leið og Strasbourg hefur fundið arftaka fyrir þjálfarann sinn.
Strasbourg er með þrjá þjálfara í sigtinu og er búist við að félagið nái samkomulagi við einn þeirra á næstu dögum. Sky Sports býst við að Rosenior verði tekinn við hjá Chelsea fyrir leik liðsins gegn Charlton í enska bikarnum um helgina.
McFarlane stýrði Chelsea til 1-1 jafntefli gegn stórveldi Manchester City á Etihad leikvanginum í sínum fyrsta leik við stjórnvölinn og núna fær hann að stýra liðinu í Lundúnaslag.
Athugasemdir



