Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 13. mars 2019 17:00
Arnar Daði Arnarsson
„Aðstaðan á Laugardalsvelli er hreinlega ömurleg"
Laugardalsvöllur eins og hann er í dag.
Laugardalsvöllur eins og hann er í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ríkharður Daðason og Rúnar Kristinsson eru gestir Miðjunnar í vikunni.
Ríkharður Daðason og Rúnar Kristinsson eru gestir Miðjunnar í vikunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Sölvi Logason
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Gestir Miðjunnar í þessari viku voru fyrrum landsliðsmennirnir Ríkharður Daðason og Rúnar Kristinsson.

Þeir eiga það sameiginlegt að hafa spilað landsleik Íslands og Frakklands á Laugardalsvellinum, 5. september 1998. Í Miðjunni var sá leikur ræddur í þaula.

Þrátt fyrir að Ríkharður Daðason hafi skorað eina mark Íslands í 1-1 jafnteflinu gegn Frökkum þá er eitt af eftirminnilegustu atriðum Rikka úr þeim leik nánd stuðningsmanna við leikmenn í þeim leik.

Geðveikt að finna fyrir fólkinu
Settir voru upp bráðabyrgðastuðningspallar fyrir aftan bæði mörkin fyrir leik og voru stuðningsmenn Íslands því nær vellinum en venjulegt þykir á Laugardalsvellinum.

„Við vorum búnir að sjá byggingu þessa palla daginn fyrir leik en í rauninni gerbreytir þetta leiknum þegar við komum inná. Ég man þegar við horfðum í augun á hvor öðrum fyrir leik þá hugsaði maður: "Það má mikið ganga á ef við ætlum að tapa hérna."

„Við vorum búnir að ná í fín úrslit á heimavelli og það var geðveikt að finna fyrir fólkinu. Maður kom til baka til að verjast í horni og maður sá áhorfenda bara einhverja fimm metra frá manni fyrir aftan endalínuna," sagði Ríkharður Daðason í Miðjunni og hélt áfram að lýsa sinni upplifun.

„Þú heyrðir og sást hvítuna í augunum á áhorfendunum. Mér fannst þetta eftirminnanlegt. Við höfum margoft rætt þetta leikmennirnir sem spiluðu leikinn að það gaf okkur rosalega mikið að finna þessa nánd."

Hlýnar í hjartarætur að rifja upp stemninguna
Rikki segir það pínu sorglegt að þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á Laugardalsvellinum frá árinu 1998 þá sé áhorfendur enn svona langt frá vellinum.

„Völlurinn er fullur og það er skemmtilegt en það er samt ennþá þannig að fólkið er langt í burtu frá vellinum. Það þýðir stig og það þýðir betri árangur ef við gerum gryfju þar sem liðum líður ekki vel að koma og mæta Íslandi. Það getur verið vont veður og ef við búum þar af auki til umhverfi þar sem fólk er nálægt vellinum og alvöru stuðningur þá munum við ná í fleiri stig," fullyrðir sóknarmaðurinn Rikki Daða.

„Þetta er fyrsta tilfinningin þegar maður hugsar um þennan leik. Manni hlýnar í hjartaræturnar þegar maður rifjar upp stemninguna og hvað allir voru nálægt manni."

Snýst ekki bara um leikmennina
Miðjumaðurinn fyrrverandi, Rúnar Kristinsson tekur undir orð Rikka en Rúnar var einnig gestur Miðjunnar.

„Það er skelfilegt satt best að segja (að verið sé að ræða þetta árið 2019). Maður er orðinn frekar pirraður að það sé enginn skilningur á því hversu mikilvægt þetta er í íþróttum. Miðað við allan þann árangur sem Ísland hefur sýnt knattspyrnuheiminum og alla þá atvinnumenn sem við eigum erlendis og með frábær landslið bæði karla og kvenna. Við þurfum nýjan völl. Við þurfum fólkið nær okkur. Þetta snýst ekki bara um leikmennina heldur líka fyrir áhorfendurna," sagði Rúnar sem segir það mikilvægt að bæta aðstöðuna og umgjörðina í kringum landsliðið hér heima.

Hann segir einnig að stuðningsmennirnir vilji sitja nær vellinum til að taka meira þátt í leiknum með leikmönnunum.

„Búningsklefaaðstaðan er ekki nægilega góð, allir evrópskir staðlar eru brotnir, klefarnir eru of litlir. Aðstaðan er hreinlega ömurleg eins og hún er. Við þurfum að gera átak og við þurfum að pressa á að fá þetta í gegn. Það þarf að fá alvöru fótboltavöll fyrir íslenska þjóðina."

Hvað viltu einkenna þig sem þjóð?
Í lokin bætir Rikka við að þetta megi ekki alltaf snúast um peninga, hagnað og þar eftir götunum.

„Mér finnst pínu leiðinlegt að umræðan fari strax í það, verður þetta arfbært verkefni? Verður plús í kladdann? Verður niðurstaðan græn eða rauð? Þetta skiptir oft minna máli þegar rætt er um menningu en þegar kemur að íþróttum þá verður að ganga upp að það verði hagnaður af rekstri."

„Það er pínu ósanngjarnt. Það er klárlega þannig að það verður nær því að vera nær núlli en þegar um Hörpuna er að ræða. En það á ekki að vera úrslitaatriðið."

„Þetta er spurning um það, hvað viltu einkenna þig sem þjóð? Viltu vera þjóð sem býður upp á það sama og aðrar þjóðir? Við viljum gera okkur gildandi. Við erum rík þjóð í efnahagslegu samhengi við aðrar þjóðir. Við eigum alveg að geta átt efni á að halda úti þjóðarleikvangi allavegana í einhverju hlutfalli við okkar höfðatölu, sem hýsir 15 - 20 þúsund manns eða jafnvel minna."

Ríkharður segir það yfirleitt vera þá sem eru anti sportistar sem spyrja hvort þetta standi undir sér. Þeir velta því fyrir sér hvort þetta eigi eftir að skila hagnaði og hvort við eigum ekki efni á þessu.

„Það verður þá að bera það saman við aðra hluti sem þú ákveður að halda úti sem þjóð. Þetta gæti fljótt orðið kennileiti Reykjavíkur eins og Hallgrímskirkja og Harpan og annað slíkt," sagði Ríkharður Daðason að lokum í umræðunni um Laugardalsvöllinn.

Hægt er að hlusta á Miðju vikunnar hér.
Athugasemdir
banner
banner