Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 13. mars 2023 18:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Synd fyrir íslenskan fótbolta - „Engin tilviljun að hann fór í Liverpool"
Kristján Gauti Emilsson.
Kristján Gauti Emilsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fagnar marki með FH.
Fagnar marki með FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Gauti Emilsson var á sínum tíma efnilegasti leikmaður landsins. Hann fór ungur að árum frá FH til Liverpool og var í unglingaliðunum hjá enska stórliðinu.

Hann eyddi þremur árum með unglinga- og varaliði félagsins áður en hann sneri aftur til FH árið 2012. Kristján Gauti spilaði með Fimleikafélaginu næstu tvö árin en öflug byrjun hans sumarið 2014 skilaði honum samningi hjá NEC Nijmegen í Hollandi.

Meiðsli höfðu mikil áhrif á feril hans en hann lagði skóna á hilluna alfarið fyrir um tveimur árum síðan eftir að hafa tekið takkaskóna fram aftur sumarið 2020.

Emil Pálsson, fyrrum leikmaður FH, var gestur í hlaðvarpsþætti á Fótbolta.net í dag þar sem hann talaði aðeins um Kristján Gauta en þeir urðu góðir vinir í yngri landsliðunum. Sá vinskapur hafði svo áhrif á að Emil gekk í raðir FH á sínum tíma.

„Það voru alltaf helgar á Laugarvatni þar sem leikmenn utan af landi komu saman og voru að æfa. Þetta var úrtakshelgi þegar við vorum 14 eða 15 ára. Þar kynnist ég strákum sem voru í FH, aðallega Kristjáni Gauta. Við urðum góðir félagar,"

„Síðan erum við saman í landsliðunum á meðan ég bý fyrir vestan og hann í Hafnarfirði. Það voru alltaf helgar þar sem U15 og U16 voru að æfa saman í Egilshöllinni og svona. Þá fór ég alltaf og var hjá honum. Alltaf þegar ég var að koma suður á þessar æfingar þá gisti ég hjá Gauta. Við urðum mjög nánir. Það endar á því að ég fer á reynslu hjá FH í gegnum hann. Ég fer í desember 2009 og æfi með FH í eina viku. Það gengur mjög vel og þeir vildu fá mig strax þar. Ég spila eitt tímabil í viðbót með Vestra og það var ákveðið að ég myndi fara í FH eftir það."

Emil telur að Kristján Gauti væri sóknarmaður númer eitt í landsliðinu í dag ef allt hefði farið á besta veg hjá honum.

„Ég held að flestir sem þú talar við sem eru 92 og 93 segi að þeir sáu sjaldan leikmann sem var með gæðin sem hann var með, sérstaklega á þessum aldri. Það var engin tilviljun að hann fór í Liverpool þegar hann var 15 ára. Þeir sáu gæðin sem hann var með," sagði Emil og bætti við:

„Það var algjör synd fyrir íslenskan fótbolta að hann hafi lent í þessum meiðslum sem hann lenti í. Ég er 99 prósent viss um að hann væri framherjinn í íslenska landsliðinu í dag ef hann hefði haldist meiðslalaus og haldið áfram að spila fótboltann sem hann var að spila."

Ef og hefði og allt það, en það er alveg ljóst að Kristján Gauti var með ótrúleg gæði. Hann lagði skóna á hilluna eftir erfið meiðsli og reyndi að snúa aftur sumarið 2020 en það gekk ekki sem skyldi. Hann er ekki mikið fyrir athyglina, ekki mikið fyrir að gefa viðtöl en sagði frá því fyrir nokkrum árum að hann væri að læra kvikmyndagerð eftir að skórnir fóru upp á hillu.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Emil í spilaranum hér fyrir neðan.
Að halda lífi eða halda áfram í fótbolta
Athugasemdir
banner
banner
banner