Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Juventus unnu frækinn 3-1 sigur á Ítalíumeisturum Roma í Seríu A í kvöld.
Fyrrum landsliðskonan var á miðsvæðinu hjá Juventus í kvöld og stóð sig frábærlega.
Roma vann deildina fyrir nokkrum vikum og þá var Juventus búið að tryggja annað sæti deildarinnar, en Juventus vildi klára tímabilið á frábærum nótum.
Sofia Cantore skoraði tvívegis fyrir Juventus og Onyi Echegini eitt, en Juventus er nú með 56 stig í öðru sæti fyrir lokaumferðina.
Sænska liðið Rosengård, sem er einmitt fyrrum félag Söru Bjarkar, er á svakalegri siglingu í sænsku úrvalsdeildinni.
Liðið vann sjötta leikinn í röð og er áfram með fullt hús stig í deildinni. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í miðri vörn hjá Rosengård.
Rosengård er ekki eina liðið sem er með fullt hús eftir sex leiki, en Hammarby hefur einnig unnið alla leiki sína.
Katla María Þórðardóttir var á skotskónum fyrir Örebro sem tapaði fyrir Norrköping, 2-1. Katla og Bergþóra Sól Ásmundsdóttir byrjuðu hjá Örebro en Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir kom inn af bekknum í síðari hálfleik.
Örebro er án stiga á botninum eftir sex leiki.
Athugasemdir