Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fim 13. ágúst 2020 16:19
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Allar líkur á að Emil verði áfram á Ítalíu - „Snýst um að spila fótbolta"
Segir að framtíðin skýrist að öllum líkindum á næstu tíu dögum
Allar líkur á að Emil verði áfram á Íatalíu
Allar líkur á að Emil verði áfram á Íatalíu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefði verið mjög gaman ef það orðið en við í Padova fórum áfram og þá lokaðist glugginn
Það hefði verið mjög gaman ef það orðið en við í Padova fórum áfram og þá lokaðist glugginn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þar er metnaður til að leggja allt í sölurnar til að fara upp í Serie B og það er alveg möguleiki en ekki eini möguleikinn akkúrat núna.
Þar er metnaður til að leggja allt í sölurnar til að fara upp í Serie B og það er alveg möguleiki en ekki eini möguleikinn akkúrat núna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er án félags eins og stedndur en hann var á mála hjá Padova í Serie C seinni hluta tímabilsins sem lauk í júlí.

Fótboti.net hafði samband við Emil í dag og spurði hann út í næsta skrefið á ferlinum og umspilið sem Padova fór í. Padova átti möguleika á að komast upp í Serie B en féll út í 3. umferð umspilsins. Hvernig lítur framtíð Emils út fótboltalega séð?

Ætti að koma í ljós á næstu tíu dögum
„Hún lítur ágætlega út. Ég kláraði umspilið með Padova og er ennþá á Ítalíu. Ég tók sumarfrí með fjölskyldunni og er núna að hugsa um hvar ég spila næst. Ég myndi halda að það muni koma í ljós á næstu tíu dögum. Það eru allar líkur, án þess að ég sé að staðfesta eitthvað, á því að ég verði áfram á Ítalíu allavega," sagði Emil.

Hefði verið gaman en var ekki klappað og klárt
Padova lék, á lokadegi félagaskiptagluggans á Íslandi, í fyrstu umferð umspilsins um að komast upp um deild. Ef Padova hefði dottið út var möguleiki á því að FH hefði sent inn beiðni um félagaskipti og Emil mætt til Íslands?

„Ég var alveg búinn að pæla í því en ekkert sem var alveg klappað og klárt að hefði gerst. Hugmyndin var þannig þá að ég hefði getað farið í FH á lokadeginum og spilað með liðinu í júlí og ágúst því tímabilið á Ítalíu byrjar ekki fyrr en í september. Það hefðu verið tveir mánuðir sem einhvers konar undirbúningur fyrir tímabilið á Ítalíu. Það hefði verið mjög gaman ef það orðið en við í Padova fórum áfram og þá lokaðist glugginn."

Aulaskapur að detta út gegn Juve
Reglurnar í umspilinu um sæti í Serie B voru á þann veginn að liðið sem endaði ofar í deildinni dugði jafntefli í hverri umferð til að komast áfram. Padova komst áfram á jafntefli í fyrstu umferð, sigraði í annarri umferð en tapaði loks í þriðju umferð gegn einhvers konar varaliði Juventus (U23). Í fyrstu tveimur umferðunum dugði Padova jafntefli til þess að fara áfram.

Var skrítið að fara inn í útsláttarleiki vitandi það að jafntefli dugði til að fara áfram?

„Jú þannig séð. Það er ágætt að vita af því en við reyndum alltaf að fara inn í leikina til að vinna. Í 3. umferð dugði okkur ekki lengur jafntefli og þurftum að vinna. Við gerðum jafntefli í 1. umferð en unnum svo í 2. umferð þegar okkur dugði aftur jafntefli. Maður pældi ekkert mikið í þessu, reyndum að vinna leikina. Á móti U23 Juve þá töpuðum við þegar við þurftum að vinna, það var algjör aulaskapur en það er annað mál."

Var Padova sterkara liðið geng U23 Juve?

„Já í fyrri hálfleik vorum við miklu betri en svo skoruðu þeir beint úr aukaspyrnu sem var í raun þeirra fyrsta færi í byrjun seinni, þá kom einhver aulaskapur og panikk í liðið."

Snýst um að spila fótbolta
Fréttaritari spurði Emil næst hvort að hann horfi frekar í Serie B heldur en Serie C eða jafnvel hvort möguleiki væri á liði í Serie A.

„Nei [horfir ekkert frekar í Serie B en eitthvað annað], það eiginlega kemur í ljós. Ég er að bíða aðeins núna og sjá hvað kemur upp, deildirnar eru nýbúnar og ég er að skoða aðeins í kringum mig. Þetta snýst um að spila, spila fótbolta. Það er það sem mig langar að gera á þessum stað á ferlinum. Svo kemur í ljós hvað gerist."

Kemur til greina að vera áfram hjá Padova?

„Já það kemur til greina. Þar er ég með þjálfara sem ég var með hjá Verona í sex ár og við erum með gott samband okkar á milli. Þar er metnaður til að leggja allt í sölurnar til að fara upp í Serie B og það er alveg möguleiki en ekki eini möguleikinn akkúrat núna. Ég ætla aðeins að bíða og sjá hvað gerist," sagði Emil að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner