þri 13. september 2022 07:48
Elvar Geir Magnússon
Heimir sagður vera að taka við landsliði Jamaíku
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölmiðlar í Jamaíka segja að Heimir Hallgrímsson sé að taka við landsliði þjóðarinnar og verði formlega kynntur síðar í vikunni. Þetta kemur fram í einu stærsta dagblaði landsins, The Gleaner.

Greint var frá því í Stúkunni á Stöð 2 Sport að Heimir væri staddur erlendis í viðræðum en ekki var nánar tilgreint um hvaða starf væri að ræða.

Heimir er vinsælasti þjálfari Íslands eftir frábæran árangur með íslenska landsliðið. Hann hefur verið án þjálfarastarfs síðan hann yfirgaf Al Arabi í Katar en hefur í sumar verið ráðgjafi hjá félagi sínu ÍBV í Vestmannaeyjum.

Jamaíka er eyríki í Karíbahafi og landslið þess er í 62. sæti á styrkleikalista FIFA, einu sæti ofar en íslenska landsliðið. Jamaíka mætir Argentínu í vináttulandsleik 27. september en Michail Antonio, sóknarmaður West Ham, og Leon Bailey hjá Aston Villa eru meðal leikmanna í hópnum fyrir þann leik.
Athugasemdir
banner
banner
banner