Real Madrid mun ekki versla fleiri leikmenn í sumarglugganum en þetta sagði Carlo Ancelotti, þjálfari liðsins, eftir sigurinn í Ofurbikar Evrópu í gær.
Spænska félagið hefur fengið nokkra góða bita í sumar. Endrick kom frá Palmeiras og þá kom auðvitað Kylian Mbappe á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain.
Toni Kroos lagði skóna á hilluna í sumar og þá fóru þeir Nacho og Joselu báðir frá félaginu, en Ancelotti segir að það sé ekki þörf á því að stækka hópinn frekar.
Madrídingar reyndu að fá Leny Yoro frá Lille í sumar en voru ekki tilbúnir að greiða uppsett verð. Hann fór á endanum til Manchester United, en það er ljóst að Real Madrid þarf að auka breiddina í vörninni.
„Nei, markaðurinn er lokaður hjá okkur. Ég mun ekki biðja um fleiri leikmenn,“ sagði Ancelotti.
Þó er aldrei hægt að segja aldrei. Ýmislegt getur breyst á tveimur vikum og þá sérstaklega þegar stutt er í gluggalok.
Athugasemdir