
Þór/KA og Stjarnan skildu jöfn á Akureyri í dag. Sandra María Jessen náði að jafna metin fyrir Þór/KA undir lok leiksins. Fótbolti.net ræddi við hana eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór/KA 2 - 2 Stjarnan
„Mér fannst við vera klaufar að setja fleiri mörk í fyrri hálfleik. Við voru alveg að yfirspila þær en eftir að hafa lent undir var flott hjá liðinu að koma til baka. Fyrir fram hefði maður viljað fá þrjú stig en eitt er allt í lagi," sagði Sandra María.
Þór/KA náði forystunni snemma í seinni hálfleik en Stjarnan jafnaði metin strax í kjölfarið eftir slæm mistök hjá Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA.
„Við eigum að vera búnar að koma boltanum í netið. Síðan gerast mistök hjá markmanninum eins og hjá öllum öðrum, það er bara dýrara þegar það gerist hjá markmanninum. Erfitt að lenda síðan 2-1 undir en mér fannst við gefa meira og meira í og mér fannst við eiga skilið að ná í jöfnunarmark í lokin," sagði Sandra María.
Sandra setti sér það markmið að skora geegn öllum liðunum í deildinni. Henni hefur tekist að skora gegn öllum nema Fylki en liðin mætast í lokaumferðinni fyrir tvískiptingu deildarinnar.
„Það er pínu pressa að ná að skora á móti Fylki. Svo lengi sem við fáum þrjú stig þá er ég glöð," sagði Sandra María.