
„Svekkelsi að ná ekki að klára þetta fyrst við vorum komnar 2-1 yfir en heilt yfir líklega nokkuð sanngjörn úrslit," sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar eftir jafntefli gegn Þór/KA á Akureyri í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór/KA 2 - 2 Stjarnan
Þór/KA var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik en Jóhannes Karl var ánægður með seinni hálfleikinn hjá liðinu.
„Andleysi, lítill talandi og vorum ekki að leggja vinnuna í þetta sem þarf til að ná einhverjum árangri en það kom í seinni. Mér fannst við stíga upp og laga þá hluti sem þurfti að laga og það er bara frábært," sagði Jóhannes Karl.
Stjarnan er á leið í hreinan úrslitaleik um sæti í efri hlutanum gegn Þrótti í síðustu umferðinni fyrir tvískiptingu deildarinnar.
„Það verður stuð og stemning. Það verður hreinn úrslitaleikur við Þrótt um að vera í þessum efri hluta, það hljóta allir að geta gírað sig upp í úrslitaleik. Það er tilhlökkun að fá að kljást við þær," sagði Jóhannes Karl.