Fimm stór félög að eltast við Semenyo - Man Utd í viðræðum um nítján ára miðjumann - Arsenal hefur áhuga á leikmanni AC Milan
Kjaftæðið - Alvöru hiti í Pepsi Max studio-inu!
Hugarburðarbolti GW 16 Mr.Handsome
Enski boltinn - Hvað ertu eiginlega að tala um?
Uppbótartíminn - Ein sú besta kveður sviðið, kraftröðun og slúður
Útvarpsþátturinn - Óli Jó og er hægt að bæta Bestu?
Kolbeinn Þórðar: Algjört heillaskref og nánast fullkomið fyrir mig
Enski boltinn - Salah fór í viðtal og ótrúleg upprisa Aston Villa
Hugarburðarbolti GW 15 Mo Salah fékk rauða spjaldið !
Kjaftæðið - Salah má fara, Slot má fara en Jónatan fer ekkert!
Útvarpsþátturinn - Óvænt tíðindi úr Eyjum og Hlíðarendafundur
Kjaftæðið - Amorim veit ekkert hvað hann er að gera
Kjaftæðið - Slot henti Salah á bekkinn og Chelsea frábærir!
Hugarburðarbolti GW 13 Norska stórslysið !
Enski boltinn - Jafnt á Brúnni, ruglað rautt og yfirlýsing í fyrramálið?
Útvarpsþátturinn - Væntingar í Krikanum og Rúnar Kristins
Kjaftæðið - Albert Hafsteins fékk að lofsama Arsenal
Hugarburðarbolti GW 12 47 ára bið lokið og versta free hit sögunnar!
Kjaftæðið - Amorim og Slot í alvöru brekku
Enski boltinn - Hrein hörmung hjá Liverpool, Man Utd og Tottenham
Útvarpsþátturinn - Einkunnir Íslands og hringt út
   þri 15. september 2015 15:40
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Upptaka - Þórir Hákonar í ítarlegu viðtali: Enginn er saddur
Þórir Hákonarson á fréttamannafundi.
Þórir Hákonarson á fréttamannafundi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson.
Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórir og Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Þórir og Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tryggði sér sæti á EM fyrir rúmri viku.
Ísland tryggði sér sæti á EM fyrir rúmri viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lagerback á hliðarlínunni.
Lagerback á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórir ætlar til Frakklands að fylgjast með EM.
Þórir ætlar til Frakklands að fylgjast með EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórir Hákonarson, fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu síðasta laugardag í tilefni þess að íslenska landsliðið hefur tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins á næsta ári.

Þórir hætti sem framkvæmdastjóri KSÍ fyrr á þessu ári eftir að hafa verið í starfinu frá 2007. Hann var því framkvæmdastjóri þegar Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson voru ráðnir.

„Þegar tekin var ákvörðun um að samningur Ólafs Jóhannessonar yrði ekki endurnýjaður þá var sest niður og farið að leita að næsta þjálfara. Það var skoðað bæði með fjárhagslegar og faglegar forsendur í huga," segir Þórir en mörg nöfn komu upp og margir aðilar sem höfðu samband.

Lars þurfti ekki meðmælendur
Þórir opinberaði að Andreas Brehme hafi verið meðal þeirra sem hafi haft samband en Brehme skoraði sigurmark Þýskalands gegn Argentínu í úrslitaleik HM 1990.

„Fljótlega styttist listinn niður í nokkur nöfn. Lars hafði ekki samband að fyrra bragði en hans nafn var á þessum lista frá upphafi. Menn töluðu um að það væri kannski tími til að fá erlendan þjálfara aftur."

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fræðslustjóri KSÍ, hefur sagst hafa talað Þóri og Geir Þorsteinsson formann af því að ráða Roy Keane sem landsliðsþjálfara. Hann hafi sagt Lars vera betri kost.

„Þetta er að minnsta kosti önnur söguskýring en ég hefði notað. Umboðsmaður Keane hafði samband og ég og Geir hittum hann í London. Við vorum á leið af UEFA fundi í Genf og millilentum á Heathrow í nokkra klukkutíma og við ákváðum að hitta hann. Ég held að ég geti sagt það með fullri sannfæringu að eftir þann fund vorum við ekki spenntir fyrir því að ráða Keane. Það voru ekki sömu áherslur og sambandið hafði og hans áherslur voru öðruvísi en okkar. Það varð ekkert meira úr því máli," segir Þórir.

„Auðvitað nutum við góðs af því að Siggi þekkti hann út af því námi sem hann var í. Það er hárrétt að Sigurður Ragnar mældi með honum en Lars þurfti í sjálfu sér ekkert meðmælendur. Verk töluðu sínu máli. Margir komu að þessu."

Hugmynd Geirs að ráða Heimi
„Við störfum eftir fjárhagsáætlunum og þegar við réðum þjálfara þurftum við að setja upp ákveðinn ramma. Það var alveg ljóst að menn þurftu að rúma innan þess ramma til að við gætum fengið erlendan þjálfara. Það voru töluvert margir sem komu ekki til greina af þeim ástæðum," segir Þórir.

„Þegar við hittum Lars fyrst gerðum við honum grein fyrir því hver þessi rammi væri. Hann féllst á það enda kom hann fyrst og fremst af faglegum forsendum. Hann hefur sagt það sjálfur að hann var mjög spenntur fyrir því að búa til meira úr þeim efnivið sem við höfðum. Hann kom ekki hingað af fjárhagslegum ástæðum."

„Síðan þurftum við að fá aðstoðarmann með honum og það vildi þannig til að Heimir Hallgrímsson var á lausu á þessum tíma. Lars var ekki með einhverjar sérstakar óskir um hver yrði ráðinn með honum en það get ég sagt með algjörri vissu að Geir Þorsteinsson átti þá hugmynd að ráða Heimi," segir Þórir og hlær.

Sást í Kaplakrika að liðið gæti farið býsna langt
Hann segir að þegar íslenska U21-landsliðið hafi komist í lokakeppni EM 2011 í Danmörku hafi menn gert sér grein fyrir því að þarna væri kominn fram efniviður sem gæti komið A-landsliðinu á stórmót í framtíðinni.

„Það var hugsunin á bak við þetta. Án þess að setja fjárhaginn í hættu þá var talið þess virði að setja aukna fjármuni í þetta í ákveðinn tíma og reyna allt sem mögulegt væri til að stíga það skref að komast á stórmót. Þetta var grunnurinn sem við settum okkur."

Það var umdeilt á sínum tíma þegar KSÍ ákvað að setja U21-landsliðið í forgang yfir A-landsliðið til að koma liðinu í lokakeppni.

„Ég held að enginn geti mælt á móti þessari ákvörðun í dag. Ákvörðunin var umdeild á sínum tíma og margir höfðu skoðanir á þessu. Mótið í Danmörku var frábært fyrir okkur og fyrir þessa stráka. Þetta jók rosalega áhugann á íslenskri knattspyrnu. Þegar við unnum Þýskaland í undankeppninni fyrir mótið í Kaplakrika þá fékk maður þá tilfinningu að þetta lið gæti farið býsna langt. Við rúlluðum yfir þýska liðið. Svo fórum við á mótið og vorum einu marki frá því að komast áfram," segir Þórir.

Varð til svakalega mikil virðing
Mikið hefur verið talað um aukna fagmennsku og betri umgjörð kringum landsliðið eftir að Lars Lagerback tók við.

„Þegar við vorum í viðræður við hann gerði hann kröfur um ýmislegt. Það var samt engin stórkostleg breyting á umhverfi landsliðsins frá því sem áður var. Með fullri virðingu fyrir þeim sem á undan voru þá varð til svakalega mikil virðing með tilkomu Lars. Leikmennirnir bera mikla virðingu fyrir honum augljóslega og með því breyttist andrúmsloftið. Það er bara þannig."

„Þegar það gengur vel þá verður þetta auðvitað allt miklu skemmtilegra. Við vorum búnir að vera í ströggli áður en það má ekki gleyma því að endrum og sinnum höfum við sýnt góðan árangur. Það hafa verið hæðir og lægðir í þessu."

Samstarf Lars og fjölmiðla hér á landi hefur verið einstaklega gott og er til að mynda ákaflega létt yfir honum á öllum fréttamannafundum.

„Lars hefur talað vel um íslenska fjölmiðla og segir þægilegt umhverfi að vinna með þeim, allt annað en það sem hann þekkti frá fyrri tíð. Honum hefur liðið vel kringum fjölmiðlana á Íslandi og af þeim sökum hefur hann gefið meira af sér. Íslenskir íþróttafréttamenn eru að fjalla um fótbolta," segir Þórir.

Fundu mjög fljótt réttu blönduna
Það er ekkert eitt sem gerir það að verkum að árangurinn hafi verið þetta góður. Þórir segir að menn hafi dregið mikinn lærdóm á stuttum tíma en hver er stærsti þátturinn að mati Þóris fyrir því að þessi árangur með landsliðið náðist?

„Mjög fljótlega voru Lars og Heimir búnir að sjá hvaða hóp þeir vildu hafa. Við höfum mikið verið að spila á sömu mönnunum og þeir vita hvað er besta byrjunarliðið. Þessir leikmenn sem þeir völdu hafa verið að spila allflestir mjög mikið með sínum liðum og verið lykilmenn. Það er breyting frá því sem áður var. Okkar landsliðsmenn á árum áður voru margir oft mikið á bekknum. Að mínu viti er þetta tvennt helsta ástæðan; þjálfararnir fundu fljótt bestu blönduna og þeir leikmenn hafa verið í topp standi," segir Þórir.

„Það eykur auðvitað á sjálfstraust manna að þeir séu mikið að spila með sínum liðum og mótherjarnir bera fyrir vikið enn meiri virðingu fyrir þeim."

Þessi árangur ekki toppurinn
Lars fær talsvert meiri athygli en Heimir en sá síðarnefndi sagði það í viðtali að þeir tveir væru eins og Halli og Laddi þar sem hann væri Halli.

„Hlutur Heimis í þessu dæmi öllu saman er í sjálfu sér ekkert minni en hlutur Lars. Það er bara þannig að Lars á þennan feril að baki. En þið fjölmiðlamenn sem fylgist með þessu og ég veit það auðvitað manna best eftir að hafa starfað með þeim að þeir starfa alveg á jafnréttisgrundvelli. Allir þeirra fundir og samtöl bera það með sér," segir Þórir.

Hann er spenntur fyrir framhaldinu og er bjartsýnn á góðan árangur á EM í Frakklandi.

„Ég er spenntur fyrir því hvernig framhaldið verður á þessu. Ég held að þessi árangur sem við höfum náð sé ekki toppurinn. Ég hef góða tilfinningu fyrir því að við getum staðið okkur með miklum sóma í lokakeppninni. Ég tel okkur eiga góða möguleika á um 50% þeirra liða sem taka þar þátt. Ég tel okkur geta komið verulega á óvart. Þjálfararnir, þeir sem standa að liðinu og ekki síst leikmennirnir; það er enginn af þeim saddur."

Nýt þessarar stundar eins og restin af þjóðinni
Lars Lagerback hefur talað um að hann leggi þjálfaramöppuna á hilluna eftir EM en vill þó ekkert útiloka. Ákveðið er að Heimir Hallgrímsson taki þá við einn sem aðalþjálfari.

„Ég get ekki svarað fyrir Lars, ég hef ekkert um þetta að segja lengur. Tilfinning mín er samt algjörlega sú að Heimir muni taka við liðinu. Eftir því sem ég best veit stendur það. Lars er mjög kurteis maður en mér finnst alltaf skína í gegn að hann ætli að hætta eftir þessi keppni," segir Þórir.

Að lokum var hann spurður út í þá ákvörðun sína að láta af störfum sem framkvæmdastjóri KSÍ og hvort hann sjái ekki eftir henni nú þegar liðið er komið alla leið á EM.

„Ég er mjög sáttur við þá ákvörðun. Ég gerði mér alveg grein fyrir því að þetta yrði líklega niðurstaðan þegar ég tók hana, að við myndum fara á EM. Mér fannst þetta góður tímapunktur en ég mun pottþétt fara til Frakklands. Núna nýt ég bara þessarar stundar eins og restin af þjóðinni," segir Þórir en viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir
banner
banner