Framtíð Ten Hag ákveðin í dag - Zubimendi til City - Liverpool horfir til Frankfurt - Sane aftur til Englands
banner
   mán 16. september 2024 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ekki búinn að spila sinn síðasta fótboltaleik
Pablo Punyed.
Pablo Punyed.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pablo í leik með Víkingum í sumar.
Pablo í leik með Víkingum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er ekki sá fyrsti sem lendir í þessu og því miður ekki sá síðasti heldur," sagði Pablo Punyed, leikmaður Víkings, í hlaðvarpsviðtali við Fótbolta.net á dögunum.

Pablo, sem er einn besti leikmaður Bestu deildarinnar, varð fyrir því óláni á dögunum að slíta krossband. Hann spilar því ekki meiri fótbolta í ár.

Pablo er orðinn 34 ára gamall en hann er staðráðinn í að snúa aftur á fótboltavöllinn þegar meiðslin eru að baki. Hann hefur ekki spilað sinn síðasta fótboltaleik.

„Ég hef fengið mikinn stuðning frá Arnari (Gunnlaugssyni) og öllum í kringum Víking. Ég hef líka fengið skilaboð frá leikmönnum í öðrum liðum og það var fallegt að sjá. Fótbolti er lítið samfélag þar sem allir þekkjast. Ég myndi aldrei vona að einhver lendi í svona meiðslum. Það er erfitt. Það var fallegt að fá skilaboð frá fólki í kringum mig og frá leikmönnum í öðrum liðum. Þó að við séum að spila gegn hvor öðrum, þá erum við ekki óvinir - bara andstæðingar," segir Pablo.

„Sem betur fer er ég með tvær litlar stelpur heima sem leyfðu mér ekki að vera á botninum lengi. Það hjálpar að vera með fjölskylduna í kringum mig. Konan mín er hetjan í þessu öllu saman. Auðvitað kemur sú hugsun upp að ég gæti hafa verið að spila minn síðasta leik. Ég gaf mér tíma að hugsa hvað ég vildi gera en á meðan eldurinn er í hjartanu, þá ætla ég alltaf að spila."

Ertu pottþéttur á að snúa aftur núna?

„Ekki spurning," sagði Pablo þá.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.
Einn mesti sigurvegari sem hefur spilað í íslenskum fótbolta
Athugasemdir
banner
banner