Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 16. nóvember 2021 19:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Verið frábærir fyrir Ísland, en þetta er bara búið"
Icelandair
Alfreð hefur verið að glíma við meiðsli.
Alfreð hefur verið að glíma við meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Þorlákur Árnason.
Þorlákur Árnason.
Mynd: Palli Jóh / thorsport
Það hafa orðið miklar breytingar á íslenska landsliðinu á síðasta árinu. Það hafa margir yngri leikmenn komið inn í liðið og byrjað er að byggja til framtíðar.

Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs og fyrrum starfsmaður KSÍ, var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag þar sem hann ræddi um landsliðið.

Hann telur að íhaldssemi Lars Lagerback, sem þjálfaði liðið með Heimi Hallgrímssyni, hafi kostað sitt þó árangurinn hafi verið stórkostlegur. Þeir spiluðu mikið á sömu leikmönnunum.

„Íhaldssemi Lars kostar að það er erfitt að taka við. Guðlaugur Victor (Pálsson) er gott dæmi; hann var á tímabili ekki í 40 manna hóp og er allt í einu þvílíkt mikilvægur núna. Þessi velgengni og íhaldssemi kostar líka," sagði Þorlákur.

Hann telur að það sé kominn tími á að þakka mörgum af eldri leikmönnunum fyrir. „Ég held að það sé kominn tími á að þakka okkar bestu leikmönnum undanfarin ár fyrir og að nýja kynslóðin taki við. Að það sé skýrt. Þessir leikmenn, eins og Elías markvörður, hann er orðinn góður."

„Fyrir mér hafa Aron, Alfreð, Gylfi og Jói verið frábærir fyrir Ísland, en þetta er bara búið. Það myndi hjálpa mikið að segja 'takk fyrir komuna'. Jói og Alfreð geta ekki spilað á hæsta stigi og spilað landsleiki. Þeir geta það ekki (vegna meiðsla). Jói spilar meiddur í kálfa 2018 og þetta hefur verið að plaga hann síðan. Það er rosalega erfitt að segja þetta... en fyrir mér er þetta bara 'bless'."

Þorlákur var spurður hvort það þyrfti ekki eldri leikmenn til að hjálpa yngri leikmönnunum að stíga næstu skref. Hann segir Birki Bjarnason, sem er núna leikjahæstur í sögunni í A-landsliði karla, góðan kandídat í það. „Birkir er að því. Hann hefur verið gagnrýndur mikið. Hann er búinn að spila margar stöður. Karakterslega séð og að hafa hann þarna núna sem fyrirliða, hann er að hjálpa þessum leikmönnum. Hann vill vera þarna. Við erum með sadda leikmenn líka sem eru búnir að gera þetta allt. Mér finnst hann vera í öðru hlutverki og mér finnst hann vera gefa orku í liðið. Hann er flottur karakter."

Þorlákur nefndi að það væru mjög spennandi leikmenn að koma upp eins og Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson. Það verði að byggja þetta upp á yngri leikmönnunum. „Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan í íslenskum fótbolta."

Alla umræðuna má hlusta á hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Landsliðið, Jón Rúnar og fótboltafréttir
Athugasemdir
banner
banner
banner