Arne Slot var kátur eftir 0-2 sigur Liverpool á útivelli gegn nýliðum Ipswich Town í fyrstu umferð nýs úrvalsdeildartímabils á Englandi.
Mohamed Salah skein skært eins og hann hefur gert svo oft áður í fyrstu umferð tímabilsins. Hann lagði fyrst upp og skoraði síðan á fimm mínútna kafla í síðari hálfleik, eftir að hafa átt slakan fyrri hálfleik eins og allt Liverpool liðið.
„Við bjuggumst við þessu í fyrri hálfleik, þeir gáfu okkur ekki andartak á boltanum en gátu ekki haldið þessu áfram í síðari hálfleik. Við stjórnuðum leiknum eftir leikhléð," sagði Slot.
„Í hálfleik sagði ég við strákana að þeir þyrftu að vinna fleiri einvígi um boltann, sérstaklega í loftinu. Þegar þeir byrjuðu að gera það þá náðum við meiri stjórn á leiknum og Ipswich hélt svo ekki í við hraðann hjá okkur."
Slot var svo spurður út í það hvort hann ætli að byggja spil liðsins í kringum stórstjörnuna Salah.
„Ég trúi frekar á liðsheildina heldur en einstaklinginn. Hann getur skorað þessi mörk sem hann skorað útaf því að hann er með góða liðsfélaga sem búa til mörkin og skapa pláss með sniðugum hlaupum. Mo þarf á liðinu að halda, alveg eins og liðið þarf á Mo að halda. Við erum með fleiri leikmenn í liðinu sem geta gert út um leiki upp á eigin spýtur, Mo er ekki einn um það.
„Við erum með mikið af ótrúlega góðum leikmönnum í þessu liði og markmiðið fyrir tímabilið er að spila jafn vel og strákarnir gerðu í fyrra, eða betur."
Slot sagðist að lokum vera gríðarlega spenntur fyrir frumraun sinni í keppnisleiki á Anfield. Liverpool tekur þar á móti Brentford um næstu helgi.
Athugasemdir