Arsenal mætir til leiks í fyrstu umferð nýs úrvalsdeildartímabils í dag og er Mikel Arteta spenntur fyrir komandi leiktíð.
Arsenal hefur ekki unnið ensku úrvalsdeildina í rúmlega 20 ár og vonast Arteta til að breyta því.
„Strákarnir sögðu allir við mig eftir síðustu leiktíð að þeir gætu gert betur. Þeir eru staðráðnir í því að gera betur. Þeir eru ótrúlega metnaðarfullir," sagði Arteta í gær, á fréttamannafundi fyrir heimaleik Arsenal gegn Wolves.
„Við erum virkilega spenntir fyrir tímabilinu, við getum ekki beðið eftir að fara af stað. Við áttum mjög gott undirbúningstímabil og strákarnir eru tilbúnir í slaginn."
Arteta telur liðið sitt enn eiga nokkuð í land til að spila nákvæmlega eins fótbolta og hann vill sjá, en Arsenal hefur síðustu tvö tímabil barist við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn. Á síðustu leiktíð safnaði Arsenal næstflestum stigum í úrvalsdeildarsögu sinni en tókst þó ekki að hampa titlinum.
„Við erum ennþá langt frá því að spila eins og ég vill að við spilum. Við erum mjög góðir og þurfum að leggja mikla vinnu á okkur til að verða enn betri.
„Þetta verður mjög erfitt tímabil, það er mikið af virkilega sterkum liðum í þessari deild."
Athugasemdir