Mark Clattenburg, fyrrum úrvalsdeildardómari, er ósáttur með hvernig VAR-kerfið hefur haft áhrif á hegðun dómara í ensku úrvalsdeildinni.
Hann er ánægður með að dómarastéttin sé að bregðast við neikvæðum áhrifum VAR-kerfisins og að byrja að treysta á eigið innsæi aftur.
„Það er á ábyrgð dómara að dæma rétt og ekki láta utanaðkomandi þætti hafa áhrif á dómgæsluna. Það verður minnkað inngrip með VAR-kerfinu á nýju úrvalsdeildartímabili og þurfa dómarar að standa og falla með eigin ákvörðunum á ný," segir Clattenburg.
„Ég tók eftir því á síðustu leiktíð að dómararnir voru ekki að taka ákvarðanir strax og hlutirnir gerðust, þeir biðu frekar eftir inngripi frá VAR. Á þessari leiktíð verður þetta öðruvísi þar sem dómararnir munu þurfa að taka fleiri ákvarðanir sjálfir og vera sneggri að því."
Clattenburg, sem var ráðinn til Nottingham Forest sem sérstakur ráðgjafi í dómaramálum fyrr á árinu en hætti eftir nokkra mánuði í starfi, er ánægður með þróunina á dómaramálum enska boltans.
Athugasemdir