„Það var nokkrum dögum fyrr en ég þurfti aðeins lengri tíma til að hugsa mig um og svo fór allt á flug um kvöldið á gluggadegi,“ sagði Dagur Ingi Valsson, nýr leikmaður KA, í viðtali við Fótbolta.net, en hann kom til félagsins frá Keflavík.
Dagur hafði verið orðaður við KA í einhvern tíma áður en hann gekk í raðir félagsins.
13.08.2024 23:51
KA nælir í Dag Inga frá Keflavík (Staðfest)
Eftir síðasta tímabil sagði Dagur frá því í viðtali að hann væri tilbúinn í næsta skref ferilsins. Bárust fregnir af því að Keflavík hafði sett hann á sölulista þar sem hann væri á leið inn í samningsár og gengu síðan skiptin í gegn á þriðjudag.
Hann fékk tilboð frá KA nokkrum dögum fyrir gluggalok og hafði því ágætis umhugsunarfrest áður en hann tjáði þeim að hann væri til í að hoppa á tækifærið.
14.08.2024 14:02
KA sagt hafa borgað fimm milljónir fyrir Dag Inga
Talið er að KA hafi greitt Keflavík fimm milljónir fyrir Dag Inga.
„Þetta lá í loftinu í smá stund og ég var pínu hikandi en svo ákvað ég að slá til og ég sé ekki eftir því í dag. Síðustu daga var nóg að hugsa um,“ sagði Dagur sem hefur verið dreymt um að spila fyrir KA síðan hann var á mála hjá Leikni F.
„Mig hefur alltaf langað til þess að spila fyrir KA alveg frá því ég var að spila á móti þeim í Kjarnafæðismótinu með Leikni Fáskrúðsfirði, en já bara skref upp á við á mínum ferli og gaman að vera kominn.“
Dagur segir ákvörðunina ekki hafa verið auðvelda en þó það eina rétta í stöðunni að flytja til Akureyrar.
„Já ég talaði við nokkra góða og það var ekkert sérlega auðvelt að ákveða að flytja frá fjölskyldu og vinum í bænum en það voru allir á því að taka skrefið.“
Er erfitt að fara frá Keflavík í þeirri baráttu sem liðið er í?
„Við vorum komnir á skrið og byrjaðir að tengja saman sigra eftir fremur rólega byrjun og þetta var byrjað að líta vel út og svo líka eftir að hafa verið þar í næstum 5 ár var erfitt að kveðja leikmenn og fólkið í kringum klúbbinn,“ sagði Dagur sem segir það vera æðislega tilfinningu að vera kominn í KA. „Bara frábær, nýr kafli hjá mér og ég er bara spenntur fyrir framhaldinu.“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir