Fulham tapaði gegn Manchester United í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær en Marco Silva, stjóri liðsins, segir að liðið hafi verk að vinna.
Leikmenn á borð við Joao Palhinha, Tosin Adarabioyo og Bobby De Cordova-Reid yfirgáfu félagið í sumar en þeir voru allir í stóru hlutverki á síðustu leiktíð.
„Leikurinn var opinn og brotinn, við vorum að flýta okkur of mikið. Við misstum boltann of fljótt. Við leyfðum þessu að verða alltof tilfinningaríkt og við vildum það ekki," sagði Silva um leik liðsins í gær.
„Við misstum fjóra byrjunarliðsmenn (í sumar). Við vorum líklega eina liðið í úrvalsdeildinni sem missti fjóra byrjunarliðsmenn. Við verðum að byggja aftur upp. Við höfum verk að vinna á næstu tveimur vikum. Við erum mjög ánægð með það hvernig leikmennirnir hafa unnið. Við erum að leggja hart að okkur til að ná í það sem við þurfum."