Gary O'Neil, þjálfari Wolves, segir sína menn vera tilbúna fyrir nýtt úrvalsdeildartímabil en þeir byrja á gríðarlega erfiðum leik á útivelli gegn Arsenal.
Hann telur sig búa yfir góðum leikmannahópi sem gæti þó verið betri eftir sölurnar á Max Kilman og Pedro Neto.
O'Neil vill fá nýja leikmenn inn til að fylla í skörðin eftir að Úlfarnir fengu greiddar rétt tæpar 100 milljónir punda fyrir sölurnar á þessum tveimur leikmönnum.
„Við þurfum að finna nýja leikmenn í þessar stöður sem fyrst. Þeir voru gríðarlega mikilvægir fyrir liðið, Max spilaði hvern einasta leik á síðustu leiktíð og Pedro átti stóran þátt í markaskorun liðsins. Þetta voru tveir af bestu leikmönnum félagsins," sagði O'Neil á fréttamannafundi í gær.
„Við erum að vinna hörðum höndum að því að finna leikmenn til að fylla í þessi skörð sem hafa myndast í byrjunarliðinu. Það gæti reynst erfitt að finna rétta leikmenn en við gerum okkar besta.
„Við þurfum helst að fá leikmenn inn sem þekkja ensku úrvalsdeildina og eru klárir í slaginn frá fyrstu mínútu. Næstu vikur verða mjög mikilvægar fyrir framtíð félagsins."
Úlfarnir eru búnir að krækja í Rodrigo Gomes, Pedro Lima, Tommy Doyle og Jörgen Strand Larsen í sumar en O'Neil vill líka fá leikmenn með reynslu úr enska boltanum.
Athugasemdir