
Það voru nokkur Íslendingalið sem mættu til leiks í kvennaboltanum í Evrópu í dag, þar sem Sædís Rún Heiðarsdóttir var í byrjunarliði Vålerenga og lagði eitt mark upp í 6-0 stórsigri á heimavelli.
Vålerenga rúllaði yfir Arna-Björnar er liðin mættust í efstu deild í Noregi. Sædís Rún og stöllur tróna langefstar á toppi deildarinnar með 48 stig eftir 18 umferðir. Þær eru með ellefu stiga forystu á Rosenborg í öðru sæti, sem á leik til góða.
Arna-Björnar eru á botni deildarinnar með þrjú stig. Þær eiga enn eftir að vinna leik á deildartímabilinu.
Rosenborg lagði Brann að velli í toppbaráttunni fyrr í dag, þar sem Selma Sól Magnúsdóttir var í byrjunarliðinu og skoraði annað markanna í 2-0 sigri.
Rosenborg er núna með sex stiga forystu á Brann í baráttunni um annað sæti deildarinnar, en Brann á leik til góða.
Ásdís Karen Halldórsdóttir var í byrjunarliði Lilleström sem gerði markalaust jafntefli gegn Kolbotn og er áfram í fjórða sæti deildarinnar, með 28 stig eftir 16 umferðir. Lilleström er níu stigum á eftir Rosenborg í öðru sæti, sem veitir þátttökurétt í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
Iris Ómarsdóttir var svo í byrjunarliði Stabæk sem gerði markalaust jafntefli við Asane og siglir lygnan sjó um miðja deild með 21 stig.
Í danska boltanum kom Hafrún Rakel Halldórsdóttir inn af bekknum í markalausu jafntefli hjá Odense gegn Bröndby í annarri umferð tímabilsins.
Wolfsburg spilaði að lokum æfingaleik gegn PSV Eindhoven og skoraði Sveindís Jane Jónsdóttir fyrsta markið í 3-0 sigri.
Rosenborg 2 - 0 Brann
1-0 Selma Sól Magnúsdóttir ('5)
2-0 I. Berre ('76)
Kolbotn 0 - 0 Lilleström
Asane 0 - 0 Stabæk
Valerenga 6 - 0 Arna Bjornar
Odense 0 - 0 Brondby
Wolfsburg 3 - 0 PSV
1-0 Sveindís Jane Jónsdóttir ('9)
2-0 Svenja Huth ('13)
3-0 Lena Lattwein ('16, víti)
Athugasemdir